149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:00]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða og ég tek undir orð flutningsmanns frumvarpsins, Birgis Þórarinssonar, um að hún hefur verið málefnaleg og bara djúp. Það er gaman þegar það tekst í þessum sal. Ég hef ýmislegt við þetta frumvarp að athuga en hins vegar hef ég líka ýmislegt að segja því til stuðnings.

Ég ætla að byrja á því jákvæða, koma með góðu fréttirnar fyrst. Mér finnst þetta raunverulega nokkuð sem hefði átt að taka fyrir fyrir töluvert löngu sem kemur inn á það sem samflokksmaður minn, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, kom inn á. Það er tímasetningin sem gerir þetta svolítið óheppilegt og mér dettur í hug að það sé pínulítið ástæðan fyrir því að konur hafa ekki flykkst á málið.

Um tenginguna við staðgöngumæðrun og þá umræðu sem hefur verið er tvennt sem mig langar að segja. Það er kannski svolítið augljóst og borðleggjandi að það er ekkert mál að tengja þetta saman og mjög rökrétt að mörgu leyti. Hins vegar vil ég segja að tónninn í umræðu um staðgöngumæðrun sem hefur verið í þessum umræðum hefur verið nokkuð dómharður og neikvæður. Ég er dóttir fæðingarlæknis og glasafrjóvgunarlæknis og hef ýmislegt um staðgöngumæðrun og slíkt að segja vegna þess að þegar ég var alast upp var mikið rætt á heimilinu um þá hræðilegu sorg sem það er fólki þegar það getur ekki átt eigin börn. Það er heilbrigðisvandamál í mörgum tilfellum, það er læknisfræðilegt að geta ekki gengið með sitt eigið barn. Við bjuggum í Bretlandi og pabbi var læknir þar. Þar er staðgöngumæðrun að því er ég best veit lögleg og leyfð. Hins vegar eru reglugerðir í kringum hana sem ég ætla ekkert að þykjast vita hverjar eru nákvæmlega en mig minnir að það reyni á alls konar hluti. Tökum t.d. systur, stundum er staðgöngumæðrun ekkert annað en fólk að hjálpa systkini. Ég ætla samt ekkert að festast í þessu. Fyrst þetta bar á góma má nefna að þetta er oft innan fjölskyldna en jafnframt er einhvers konar greiðsla, styrkur, til þeirra kvenna líka vegna þess að þær eru ganga í gegnum allt ferlið. Það er ekkert verið að kaupa og selja börn milli fjölskyldna.

Þetta er seinni tíma mál að ræða. Ég vík aftur að frumvarpinu. Í greinargerðinni fannst mér fyrri hlutinn mjög góður og fínn. Í seinni hlutanum er þessu stillt upp sem samanburði við þungunarrof og ég rek líka augun í að orðið fóstureyðing er notað sem er kannski orðið svolítið fornaldarlegt orð í þessu samhengi. Yfirleitt snýst þungunarrof um að rjúfa og enda þungunina, ekki eyða fóstrinu. Þungunarrof er miklu nákvæmara orð yfir þetta og mér finnst bara mjög jákvætt að það sé að ná fótfestu í tungumálinu.

Í seinni hluta greinargerðarinnar er þessu stillt upp saman sem aftur kannski setur upp rauð flögg sem gera það að verkum að ekki margar konur eru á þessu frumvarpi. Sú eina sem var á því og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir minnist á hætti við á síðustu stundu. Þetta er hitamál.

Ég tel mig nokkuð hæfa til að tjá mig um þetta frumvarp og innihald þess vegna þess að sjálf á ég fjögur börn sem ég hef alið og hugsað um. Ég var mjög ung þegar ég átti mitt fyrsta barn og það var ekki beint planað. Án þess að ég ætli að leysa umræðuna upp í einhverjar anekdótur um mig voru töluvert erfiðar félagslegar aðstæður að vera 18 ára og sjá það fyrir sér að verða foreldri innan árs. Ég gerði það samt og nú er drengurinn minn 18 ára gamall, svo á ég þrjár dætur á misjöfnum aldri.

Ég vil aftur vekja athygli á seinni hluta greinargerðarinnar. Eins og ég segi hef ég reynslu af því fjórum sinnum að ganga með börn alla leið, fæða þau, eignast þau. Það að líkja því saman við það læknisfræðilega ferli sem þungunarrof er í langflestum tilfellum er fjarstæðukennt. Þetta er svo eðlisólíkt að það er ekki hægt að lýsa því og ég held að langflestar konur sem hafa gengið með barn viti hversu mikið álag það er að klára þetta dæmi, andlega og líkamlega á alla mögulega vegu og meira að segja fyrir fólk í kringum móðurina. Það er ekki bara maður sjálfur eða konan sjálf, það er raunverulega allt umhverfið. Þetta getur haft áhrif á atvinnumöguleika, getu til að stunda vinnu og nám, félagsleg mál o.s.frv. Þetta er gríðarlegt álag, sama hvernig á það er horft og svo þarf að koma þessum blessuðum börnum einhvern veginn í heiminn. Til þess eru tvær leiðir og báðar eru mjög krefjandi líkamlega, svo ekki sé meira sagt. Maður er langan tíma að jafna sig eftir slíkt, hvort sem það er eðlileg fæðing — ég hef oft sett út á að annað sé kallað eðlileg fæðing eins og hin sé óeðlileg. Það er hvort tveggja jafn eðlilegt að koma heilbrigðu barni í heiminn, það á bara að snúast um það en ekki hvernig það var gert. Ég hefði viljað sjá þetta frumvarp fyrir löngu og það fer ekki á milli mála í mínum huga, virðulegi forseti, að flutningsmaður frumvarpsins meinar ekkert nema gott í þessu samhengi. Mér finnst hann tala fallega um konur sem eru í þessum aðstæðum og af skilningi og umhyggju fyrir velferð þeirra. Og vel að merkja, mér finnst allt í lagi að telja hv. þm. Birgi Þórarinssyni það til tekna að hann flutti hérna mjög sterka ræðu um #églíka-byltinguna, #metoo, um daginn. Ég held að það sé allt í lagi aðeins að benda á þann karlmann sem er að flytja þetta mál og kannski gefa þessu góðan gaum.

Við vitum það öll sem eigum börn og örugglega jafnvel þau sem eiga ekki börn að ekkert er viðkvæmara í lífinu en það sem snýr að börnunum manns. Það er ekkert heilagra, a.m.k. er það þannig í mínu lífi. Þess vegna langar mig, bæði í allri málsmeðferð þessa máls og í hinu sem hefur komið upp í sambandi við þungunarrof, að beina því til þingheims að hafa rosalega í huga að allt sem tengist börnum manns, allt sem tengist innkomu þeirra í heiminn og heilsu, er mjög viðkvæmt. Ég hvet alla til að tala af virðingu, háttsemi og nærgætni um þessi frumvörp og öll þessi málefni. Það er skylda okkar sem vinnum á hinu háa Alþingi að gæta orða okkar og reyna að koma í veg fyrir að umræðunni sé snúið upp í lýðskrum, að það fari ekki að framkalla erfiðar og sárar tilfinningar úti í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en í greinargerð kemur fram að aðstæður kvenna séu mjög misjafnar. Mér finnst gott að sjá það þar. Ég hvet fólk til að hafa í huga að þær eru mjög misjafnar og við höfum yfirleitt mjög takmarkaðan aðgang að þeim. Við sem störfum hérna erum ekki í því hlutverki að vega endilega og meta eða dæma í þeim efnum. Þetta er bara hugleiðing. Ég ætla að ljúka þessu núna með fleygum orðum sem heyrast kannski allt of sjaldan yfir höfuð: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.