149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Eins og við vitum og sjáum er þetta tilfinningarík umræða og ég dreg ekki úr því. Þá segja menn stundum ýmislegt sem þeir muna svo kannski ekki eftir nákvæmlega á þeim tímapunkti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það hvað hún nálgast málið vel faglega og líka tilfinningalega. Það er hið besta mál. Þetta eru tilfinningarík mál og ég dreg alls ekki úr því.

Ég vil að lokum nota tækifærið og óska þess að hv. velferðarnefnd skoði þetta mál frá öllum hliðum, skoði framkvæmdina eins og hún er í Danmörku og hefur gefið góða raun eins og ég hef nefnt hér, að styðja við bakið á konum sem gefa börn sín til ættleiðingar í Danmörku. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við getum gert slíkt hið sama hér.

Það er mikilvægt í mínum huga að við áttum okkur á því sem ég hef sagt hér og er náttúrlega, eins og ég nefndi, megintilgangur þessa frumvarps, að þarna eru konur úti sem eru að vísu fáar en þurfa svo sannarlega þessa aðstoð. Ef einhverjir hv. þingmenn hafa orðið fráhverfir þessu máli vegna tölfræðilegu upplýsinganna sem ég hafði með um fóstureyðingar, þungunarrof, bið ég þá sömu hv. þingmenn að horfa fram hjá því. Það var (Forseti hringir.) eins og ég segi ég bara til upplýsingar og ég skoða málið með jákvæðum hætti. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að við opnum þessa umræðu.