149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:17]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þetta andsvar. Ég man nú það sem ég ætlaði að koma að áðan, einmitt það að ég er sammála því að það sé jákvætt að opna á þessa umræðu í samfélaginu og þjóðfélaginu öllu. Það hefur verið tabú í kringum þessi mál og það er ekki gott fyrir samfélagið. Það er ekki heldur gott fyrir þau börn sem komast að því seinna á lífsleiðinni að þau hafi verið ættleidd. Það er einmitt mjög heilbrigt ef samfélagið getur talað um þetta á jákvæðum nótum og án dómhörku og fordæmingar.