149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem mér finnst ekki hægt að ræða án þess að setja það aðeins í samhengi hlutanna. Samhengi hlutanna er í mínum huga afstaða Miðflokksmanna til þungunarrofsfrumvarpsins sem er til meðferðar á þessu þingi og tenging þess við það mál sem við ræðum nú, um að konum sem ganga með börn og gefa þau frá sér við fæðingu standi til boða að fá fæðingarstyrk í allt að sex mánuði.

Ég spyr og ræði um þetta samhengi og það er ekki úr lausu lofti gripið, heldur fylgdist ég mjög grannt og náið með því hvernig hv. þingmenn Miðflokksins töluðu við 1. umr. þungunarrofsfrumvarpsins sem nú er til meðferðar. Ég veitti því athygli með hvers konar nálgun a.m.k. nokkrir Miðflokksþingmenn og þá sérstaklega hv. flutningsmaður þessarar tillögu, hv. þm. Birgir Þórarinsson, og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson ræddu um þetta frumvarp og settu í ákveðið samhengi í mínum huga.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar um þungunarrofið. Ég drep niður í þeim parti sem snýr að akkúrat þessu frumvarpi. Rétt á undan þessum bút er hv. þingmaður að tala um rétt fósturs til lífs og spyr hver sé réttur fósturs sem er fullþroskað til lífs. Svo segir hv. þingmaður í ræðu sinni um þungunarrof, með leyfi forseta:

„Því má aldrei gleyma að sá möguleiki er ávallt fyrir hendi að breyta óvelkominni þungun í gleðigjafa til þeirra sem ekki geta alið barn. Ættleiðing er kostur sem mikilvægt er að íhuga við þessar aðstæður. Styðja ber við þær konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt við fæðingu og hefur Miðflokkurinn lagt fram frumvarp þess efnis, en konur sem gefa barn sitt við fæðingu hafa ekki notið neins stuðnings frá hinu opinbera.“

Hv. þingmaður heldur áfram, með leyfi forseta, og segist virða „sjálfsákvörðunarrétt konunnar til að taka ákvörðun um eigin líkama, að taka ákvörðun um að enda líf ófædds barns. Hvort sem ákvörðun er tekin vegna fæðingargalla, sjúkdóms eða óvelkominnar þungunar er hún langt því frá auðveld.“

Síðar í ræðunni segir hv. þingmaður að hann trúi því að kona geti tekið upplýsta ákvörðun eftir ráðgjöf fagfólks.

Ég fór í andsvör við hv. þingmann eftir flutningsræðu hans og spurði hann annars vegar hvort honum fyndist að konur sem væru þungaðar en vildu ekki eiga barn eða ganga með barn ættu eftir sem áður að gera það og gefa frá sér barnið, hvort það væri hans afstaða að það væri það sem konur ættu að gera frekar en að fara í þungunarrof. Ég fékk ekki svar við þeirri spurningu en mér finnst mjög mikilvægt að fá svar við þeirri spurningu í þessu samhengi.

Sömuleiðis spurði ég hv. þingmann hvort honum fyndist að konum ætti að vera skylt að fá ráðgjöf um þá möguleika sem þeim standa til boða, m.a. líka þungunarrof, hvort það ætti að skylda allar konur sem sækjast eftir að fara í þungunarrof til að fá fræðslu um að gefa barn sitt til ættleiðingar og fá þá 130.000 kr. fæðingarstyrk í sex mánuði að því loknu.

Ég fékk hálft svar við því. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann vilji að konur þurfi að fara í þetta viðtal. Mér heyrðist það líka á málflutningi Miðflokksmanna í umræðunni. Ég heyri jafnframt á málflutningi hv. Miðflokksþingmanna að þeim finnist að þungunarrof hljóti að vera gríðarlega þungbært fyrir allar konur sem það nota, að fóstur hafi rétt til lífs og að sá réttur, skilji ég málflutning hv. þingmanna rétt, myndist fyrir 22. viku þungunar, þar sem hv. þm. Birgir Þórarinsson hefur nefnt að fóstur séu þá orðin fullþroskuð og rætt um réttindi barns í því samhengi. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson ræddi í þungunarrofsumræðunni mjög mikið um það að hann fyndi mjög mikið til með fólki sem ekki getur átt börn.

Ástæðan fyrir að ég nefni öll þessi atriði, allan þennan bakgrunn, er sú að mér finnst ákveðin hundaflauta í gangi hjá Miðflokksmönnum. Mér finnst þeir ekki geta komið algerlega hreint fram og sagt bara: Við erum á móti því að konur fari í þungunarrof. Okkur finnst þær ekki geta tekið ákvarðanir um sig og sinn líkama og okkur finnst réttur barnsins rétthærri og réttur barnlausra foreldra til að eignast börn mikilvægari en sjálfsákvörðunarréttur konunnar. Þetta segja þeir ekki upphátt, heldur tala um að þeir finni til með fólki sem ekki getur átt börn, tala um að þeir virði sjálfsákvörðunarrétt konunnar eftir ráðgjöf fagfólks en það beri að tala um rétt barns til lífs sem er enn í móðurkviði og er ekki talið lífvænlegt utan legs af sérfræðingum en er eftir sem áður kallað fullþroskað af hv. þingmanni í sömu andrá og hann ræðir um rétt barns, rétt fósturs til lífs, í sömu andrá og hann talar um geðþóttaákvarðanir kvenna sem fara í fóstureyðingar.

Hvað á ég við með hundaflautu? Ég á við að mér finnst hv. þingmenn vera að gefa í skyn að konum beri að ganga með börn og gefa þau frekar fólki sem vill eignast börn. Ég vil bara taka skýrt fram að vissulega höfum við öll meðfæddan rétt til lífs en við höfum ekki rétt til að eignast börn. Hann er ekki til staðar. Ekki geta allir átt börn. Mér þykir frekar ljótur leikur að setja jafnvel þann þrýsting á konur sem leita sér læknisaðstoðar til að fara í þungunarrof að þeim sé skylt að tala við félagsráðgjafa sem segir þeim að svo sé vissulega líka möguleiki fyrir hendi að þær gangi með barnið og fái fyrir það fæðingarstyrk og að þær eigi að hugsa um allt fólkið sem ekki getur átt börn áður en þær taka þá ákvörðun, sem þær eru væntanlega búnar að taka þegar þær leita til heilbrigðisstarfsfólks, að fara í þungunarrof, að þær taki það líka til skoðunar að fólk vanti börn.

Ég fæ óbragð í munninn í þessu samhengi. Mér finnst mikilvægt ef kona ákveður að hún geti ekki farið í þungunarrof, að það sé ekki eitthvað sem samviska hennar leyfi henni, að hún fái einhvers konar stuðning til þess en ég sé ekki að það sé markmiðið að baki þessu frumvarpi heldur er það svo að Miðflokksmenn eru á móti þungunarrofi og vilja finna leiðir til að láta konu ganga með börn sem þær vilja ekki ganga með og gefa þeim jafnvel fjárhagslegan hvata til þess. Tilfinningin sem ég fæ er að konur séu einhvers konar útungunarvélar, að þær eigi að huga að þörfum einhverra annarra einstaklinga úti í samfélaginu vegna þess að þessir aðrir einstaklingar þrái að eignast börn, að konur eigi að íhuga allalvarlega með fjárhagslegum hvata að leggja líf sitt að veði, snúa því á hvolf, að breyta sínum lífsvenjum algerlega í níu mánuði, vegna þess að þær megi ekki gleyma því að þær geti gert þessa óvelkomnu þungun sína að gleðigjafa fyrir aðra einstaklinga sem þær þekkja ekki.

Ef ég teldi ekki að nákvæmlega þessi hugsunarháttur lægi að baki, að konum sé ekki sjálfrátt, þær ætli að taka einhverjar geðþóttaákvarðanir um þungunarrof, þeim sé ekki treystandi til að taka ákvarðanir um það sjálfar, hefði ég mögulega áhuga á að styðja við frumvarpið en því miður held ég ekki að það sé hvatinn á bak við það. Ég held því miður að við eigum ekki eftir að fá skýr svör um hver raunveruleg lífsafstaða Miðflokksmanna gagnvart þungunarrofi er og hvort þeim finnist að konur eigi frekar en að fara í fóstureyðingu að gefa börnin til ættleiðingar og hvort þeir séu yfir höfuð á móti þungunarrofi eða ekki.

Mögulega er það út af þessari tilfinningu sem er erfitt að fá konur til að flytja málið með hv. þingmönnum. Það gæti verið, ekki að ég viti það, en ég get sjálf ekki hugsað mér að styðja málið í þessari mynd með tilvísun í fjölda fóstureyðinga með öllum þeim ræðum og orðum sem fallið hafa um þungunarrof af hálfu hv. þingmanna Miðflokksins. Ég fæ ekki séð að eini tilgangurinn með þessu frumvarpi sé að styðja við, að því er virðist samkvæmt greinargerð frumvarpsins, þessa einu konu á ári sem ákveður að gefa barn sitt til ættleiðingar.