149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur ágæta ræðu. Hún vitnaði í ræðu mína um þungunarrof. Ég vil fyrst árétta það sem ég sagði áðan, það er eins og hv. þingmaður leggi áherslu á að það sé verið að þvinga konur til að fara í það úrræði að gefa barn sitt til ættleiðingar. Ég er algerlega ósammála því, það er ekki tilgangurinn með þessu frumvarpi og ég er búinn að fara í gegnum það í þessari umræðu.

Ég sagði í ræðu minni að lífsskoðanir fólks væru um margt misjafnar. Sumum konum hugnast einfaldlega ekki fóstureyðing, hvort sem það er af trúarlegum ástæðum eða öðrum. Það er bara þannig. Ef þær hafa hins vegar ekki tök á því að ala önn fyrir barninu er úrræði til staðar sem nýtur ekki neins stuðnings frá hinu opinbera í dag. Við styðjum við foreldra og fæðandi mæður með öðrum hætti en þessar konur njóta einskis stuðnings. Ég er búinn að fara yfir það og um það snýst þetta frumvarp. Ég vænti þess að menn greini aðalatriðin frá aukaatriðunum hvað þetta varðar.

„Skylt að fá ráðgjöf,“ nefndi hv. þingmaður áðan. Ég er fylgjandi ráðgjöf vegna þess að þeir sem leita sér ráðgjafar eru í mörgum tilfellum að reyna að taka ákvörðun og þurfa aðstoð í þeim efnum. Við þekkjum það að sú ráðgjöf sem konum er veitt í þessum aðstæðum (Forseti hringir.) og vilja ráðgjöf er ekki til þess að beina þeim í ákveðna braut eða fá þær til að taka einhverja sérstaka ákvörðun sem er þeim ekki þóknanleg. Það er mikilvægt að hafa það í huga.