149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort það sé siðferðileg skylda að konurnar gangi með barnið og gefi það síðan til ættleiðingar. Þetta er að sjálfsögðu ákvörðun konunnar. Ég ætla ekkert að draga úr því. En svo ég komi inn á það sem ég hef nefnt hér er álagið mikið á konuna á þessum tímapunkti og ég tel að hún eigi að leita sér þeirrar aðstoðar sem hún getur til að hjálpa sér við að taka ákvörðun sem hún er sátt við.

Ég er sjálfur ekki fylgjandi þessu nýja þungunarfrumvarpi. Ég tel enga ástæðu til að gera breytingar á núverandi fóstureyðingarlöggjöf og er andsnúinn þungunarfrumvarpinu svo það komi hér fram. Ég vil hins vegar styðja við þær konur sem við höfum rætt hér um sem eru í misjöfnum aðstæðum, hugnast ekki fóstureyðing eða þungunarrof, geta ekki alið önn fyrir barni sínu en þurfa aðstoð og um það snýst þetta frumvarp.

Hv. þingmaður hefur tengt það svolítið umræðunni um þungunarrof og því sem ég sagði þar. Ég stend við það sem ég sagði og hef lýst því yfir. Í þessum efnum óska ég hins vegar eftir því og vonast til þess að umræðan um ættleiðingar fari á svolítið hærra plan en hún hefur verið og verði ekki að því tabúi sem hefur verið nefnt hér í umræðunni og er í dag. Ég tel fulla þörf á því að við opnum umræðuna og vonast til að þetta frumvarp verði til þess.