149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég greini enn í orðum hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir ræðuna, sama óþolið fyrir skoðunum annarra og ég greindi í umræðunni fyrr á þinginu þegar rætt var um fóstureyðingar. Ég velti því fyrir mér af hverju þetta er og ég velti líka fyrir mér, vegna þess að ég man þá tíð þegar Píratar voru að byrja að fóta sig í þinginu og greiddu yfirleitt ekki atkvæði um nokkrum hlut, tóku ekki afstöðu í nokkru einasta máli, að þá sögðu menn gjarnan: Það er vegna þess að okkur skortir upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun. Ég virði það mjög. En nú segir hv. þingmaður að hún kjósi helst ekki að kona sem er barnshafandi og stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun, sem hún hefur reyndar sagt úr þessum ræðustól að sé svo sem ekkert erfið — nú veit ég ekki hvort hún hefur reynslu af því eður ei, en ég man hins vegar að hún sagði við mig, ef ég man rétt, réttara sagt í ræðu seinna í þeirri umræðu, að ég ætti ekkert með það sem karlmaður að koma upp í þessa umræðu af því að ég þekkti ekki þetta vandamál. Nú velti ég fyrir mér hvort það sé ný stefna Pírata að umræður á Alþingi séu kyngreindar yfirleitt. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé eitthvað sem kvenfólk á ekki að taka þátt í umræðum um á þinginu, sem er náttúrlega víðs fjarri og ég skil ekki.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvers vegna hún telji óráð að kona í slíkum kringumstæðum, kona sem stendur frammi fyrir því hvort hún ætli að eiga barn sem hún ber undir belti eða hvort hún vill láta eyða því, fái ráðgjöf til að hún sé fullkomlega upplýst til að taka þessa stóru ákvörðun. Ég get ekki fallist á það með hv. þingmanni að sú ákvörðun (Forseti hringir.) sem konur standa frammi fyrir sé léttvæg.