149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Óþol mitt snýr ekki að skoðunum hv. þingmanna heldur því sem mér finnst vera óheiðarleikinn, sem ég skynja í málflutningi Miðflokksins, að hann komi ekki fram með hina raunverulegu „mótivasjón“ á bak við frumvarpið og að það hafi lítið að gera með þá miklu umhyggju sem hann beri fyrir þeim konum sem Miðflokksmenn telja þurfa meiri stuðning og miklu meira með það að gera að þeir eru á móti þungunarrofi og vilji helst ekki viðurkenna það nákvæmlega.

Hv. þingmaður minnist á að ég hafi talað um að þungunarrof sé svo sem ekkert erfitt og dregur mína persónulegu reynslu inn í það líka — sem mér fannst einkar smekklegt hjá honum. Ég má til með að leiðrétta þessa athugasemd og sömuleiðis athugasemd hv. þingmanns um að ég hafi sagt að karlmenn eða öllu heldur að hv. þingmaður ætti ekkert erindi með að tala um þetta mál vegna þess að hann væri karlmaður. Ég spurði hv. þingmann hvort honum fyndist hann hafa forsendur til að halda því fram að ákvörðun um þungunarrof væri konum þungbær. Ég talaði ekki um „ekkert erfitt“ eða „ekkert mál“ eða einhverja „gamniferð“ eins og hv. þingmaður virðist vera að gefa í skyn, heldur spurði ég hv. þingmann hvaða forsendur hann teldi sig sem karlmaður hafa fyrir því að halda því fram að ákvörðun um að fara í þungunarrof sé öllum konum þungbær.

Ég sé að ég skrifaði hjá mér „sé á móti því“ en ég veit ekki fyrir hvað það stóð. Vonandi komum við aftur að því í síðari andsvörum.