149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að hv. þingmanni finnist það máli sínu til framdráttar að reyna að gera afstöðu okkar Miðflokksmanna í þessu máli og því máli sem var rætt hér áður tortryggilega á einhvern hátt. Ég veit svo sem ekki hvaða ástæður hún getur haft til þess. Ég lýsti nefnilega á sínum tíma, í umræðunni um hitt frumvarpið sem vísað er til hér, afstöðu minni og hún var ekkert á þá lund sem hv. þingmaður heldur hér fram, að ég hafi lýst því yfir að ég væri á móti því frumvarpi. Það gerði ég alls ekki, þvert á móti. Ég gerði hins vegar athugasemdir við frumvarpið sem slíkt og taldi mig að sjálfsögðu hafa rétt til þess.

Hvaða forsendur, spyr þingmaðurinn aftur, ég hafi sem karlmaður til að halda að þessi ákvörðun sé þungbær. Ég svaraði þessari spurningu einmitt við umræðuna á sínum tíma vegna þess að ég sagðist hafa orðið vitni að því, sem ég hef orðið, að þessi ákvörðun væri konum þungbær. Það getur vel verið að þetta sé jafn ósmekklegt og að ég spyrji hv. þingmann hvort hún hafi persónulega reynslu af þessu sama máli. Það getur vel verið. Ég tók það ekki svo. Ég svaraði hins vegar eftir bestu getu og taldi mig alveg fullfæran um það. Eins og ég sagði í þeirri umræðu hefur lífið kennt manni ýmislegt.

Ég spyr hins vegar aftur: Hvaða ástæður hefur hv. þingmaður til að tortryggja þau ummæli sem við Miðflokksmenn höfðum látið falla um þetta mál og hitt málið? Við höfum komið fullkomlega heiðarlega fram í báðum þessum málum. Ég frábið mér þetta og vil bara fá góða skýringu á því hvað þingmaðurinn (Forseti hringir.) telur að sé svona óheiðarlegt í málflutningi okkar um þessi mál.