149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Samhengið sem ég er að reyna að setja þetta frumvarp í og það sem mér þykir óheiðarlegt í framsetningu á málflutningi hv. þingmanna er í fyrsta lagi það sem fram hefur komið, að hv. þingmaður finni til með fólki sem ekki getur átt börn og vill einhvern veginn setja í höfuðið á konum sem eru að íhuga þungunarrof að þær eigi að íhuga allt grey fólkið sem ekki getur átt börn, samhengi sem hv. þm. Birgir Þórarinsson setti þetta frumvarp í sjálfur í flutningsræðu sinni um þungunarrof, rétt allra barna í móðurkviði til lífs og gleðigjafana sem börn verða. Ég les það samhengi út úr því að hv. þingmenn styðji ekki rétt kvenna til þungunarrofs en þori ekki að segja það og séu með þessu að stunda hundaflautu.

Hv. þingmaður þykist eitthvað voða hissa á að mér finnist ósmekklegt af honum að spyrja hvort ég hafi farið í þungunarrof. Ég spyr hv. þingmann á móti hvort hann leggi það í vana sinn að spyrja aðra hv. þingmenn út í þeirra heilsufarssögu, hvort honum finnist það eðlileg framganga á þingi að spyrja hvort viðkomandi hafi mögulega farið í ófrjósemisaðgerð eða eitthvað annað slíkt, hvort honum finnist það verjandi eða smekklegt.

Hv. þingmaður hafði rangt eftir mér um að ég hefði sagt að hann ætti ekkert með að ræða þessi mál vegna þess að hann væri karlmaður. Ég leiðrétti það, ég sagði að hv. þingmaður hefði ekki forsendur til að meta hvað öllum konum fyndist um að fara í fóstureyðingu og hvort þeim fyndist það öllum þungbært, öllum konum alltaf. Ég tel hv. þingmann bara (Gripið fram í.)— ég sagði það rétt áðan. (ÞorS: Ég sagði …) Nei, en hv. þingmaður talaði þannig samt sem áður og við erum ekki í samtali hér.