149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum allsérstakt frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Mér þykir umræðan hér farin að snúast allt of mikið um annað frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu, frumvarp um þungunarrof. Ástæðan fyrir því er væntanlega sú að hv. þingmenn sem leggja þetta frumvarp fram tengja þessi mál í greinargerðinni. Ég ætla að leyfa mér að segja að þegar þetta frumvarp kom fram á þinginu varð ég eiginlega bara reið. Það var ekki síst vegna greinargerðarinnar. Ég ætla samt að segja að 1. flutningsmaður, hv. þm. Birgir Þórarinsson, hélt miklu betri ræðu en greinargerðin með frumvarpinu er. Þá hefði verið æskilegt að greinargerðin hefði komið meira inn á þá þætti sem þingmaðurinn fjallaði um í ræðu sinni. En mér þykja þessi tvö mál algjörlega ótengd fyrir utan að eiga við um þungun og svo fæðingu barna. Það er búið að blanda inn í umræðuna þungunarrofi, að gefa bara til ættleiðingar og svo staðgöngumæðrun. Í mínum huga eru þetta þrjú algjörlega ótengd mál og eitt kemur ekki í staðinn fyrir annað.

Það góða við að þetta frumvarp kom hérna fram er að það fékk mig til að skoða réttindi mæðra sem gefa börn sín til ættleiðingar. Mér sýnist á yfirferð um lögin sem þau séu býsna rýr og mér finnst alveg ástæða til að skoða það.

Við erum hér að tala um fæðingar- og foreldraorlof og stór hluti af fæðingarorlofi snýr að réttindum barns á sínum fyrstu mánuðum til að njóta samvista við foreldra sína. Sú staða er ekki uppi þegar móðir gefur barn til ættleiðingar og ekki heldur þegar sá hörmulegi atburður á sér stað að kona fæðir andvana barn. Engu að síður eru réttindi foreldra í þeirri stöðu tryggð í lögunum.

Ég velti hreinlega fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegt að hv. velferðarnefnd, sem fær þetta frumvarp til umfjöllunar, sammæltist um að leggja frumvarpið til hliðar og velta frekar fyrir sér breytingu á lögunum sem felur í sér réttarbót til handa þeim konum sem gefa barn til ættleiðingar. Eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á í ræðunni er hluti af því ákveðinn heilbrigðisbrestur. Það að fæða barn hefur áhrif á líkamann og það er eðlilegt að eftir fæðingu fái kona eitthvert rými fyrir sængurlegu sína óháð því hvort hún elur barnið upp eða gefur það til ættleiðingar. Að þessu sögðu finnst mér full ástæða til að það sé skoðað og ég beini því til hv. velferðarnefndar að fara yfir þá réttarstöðu.

Mér finnst eiginlega mjög miður þegar við förum að rugla saman, að mínu viti, umræðu um þessi þrjú mál, þar á meðal þungunarrofi sem er algjörlega sérstök umræða. Ég hef sagt í þessum ræðustól að ég styð frumvarp sem liggur fyrir þinginu um það. Hin málin varða það að tryggja með einhverjum hætti réttindi móður sem ákveður að gefa barn til ættleiðingar og svo staðgöngumæðrun. Ég get reyndar sagt að ég er hlynnt staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það frumvarp var lagt fram og komst svo ekki lengra. Fyrst var reyndar lögð fram þingsályktunartillaga, svo var nefnd að störfum og í kjölfarið var lagt fram frumvarp um það sem fól í sér að setja ákveðinn ramma utan um það.

Eins og ég segi eru þetta þrjú algjörlega óskyld mál og mér finnst eðlilegt að umræðan sé með þeim hætti að við séum ekki að blanda þeim saman.