149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:49]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er búið að vera fróðlegt að hlusta á þessar umræður. Ég efast ekki um að tilgangurinn hafi verið góður, ég ætla að trúa því, en þegar ég las yfir bæði frumvarpið og greinargerðina sá ég ekki þennan tvíþætta tilgang sem flutningsmaður vísaði í áðan, heldur sá ég tilgang þessa frumvarps sem mér hugnast alls ekki og það er tilgangurinn að letja konur til þungunarrofs í því augnamiði að fjölga börnum til ættleiðingar. Ég veit að það var ekki tilgangur frumvarpsins í upphafi en þetta les ég út úr því og þess vegna held ég að það þurfi að breyta því og bæta.

Í greinargerðinni stendur:

„Fóstureyðing er erfið og í mörgum tilfellum þungbær ákvörðun fyrir konur.“

Er það skoðun flutningsmanna frumvarpsins að það sé auðveldara og ekki eins þungbært að ganga með barn í níu mánuði, fæða það og gefa það síðan frá sér? Það er bæði mjög mikið líkamlegt og andlegt álag og ég verð að segja að ég held að það sé ekki skoðun flutningsmanna að þetta sé auðveldari leið, bara alls ekki, og þess vegna velti ég fyrir mér hvort flutningsmenn séu bara alfarið á móti þungunarrofi. Þá hefði mér fundist miklu hreinlegra að leggja fram frumvarp um bann við þungunarrofi.

Áðan var verið að tala um ráðgjöfina. Ég hef reynslu af því að eignast barn hérna heima og svo í Bretlandi. Það er mjög erfitt að tryggja hlutlausa ráðgjöf fyrir barnshafandi konur sem þurfa að leita sér ráðgjafar. Það er mjög vandmeðfarið og ég upplifði ekki slíka hlutlausa ráðgjöf á Íslandi. Ég gerði það í Bretlandi, Bretar hafa líklega lengri reynslu af slíku en við, en þarna verður virkilega að vanda til verka ef það á að fara að skylda konur til ráðgjafar. Þá þarf að tryggja að ráðgjöfin sé hlutlaus og fagleg og að engum sé ýtt út í eitthvað sem hann vill svo ekki á endanum. Það er mjög vandasamt.

Á Íslandi er nánast fullkomið frelsi bæði til þungunarrofs og að gefa barn til ættleiðingar. Hvort tveggja má og ég er alveg opin fyrir því að þær konur sem kjósa að gefa börn sín til ættleiðingar fái fæðingarorlof. Ég myndi ekki vilja tala um fæðingarstyrk til eins eða neins. Ég myndi vilja tala um fæðingarorlof og þá myndi ég vilja taka alla með, ekki bara konur sem kjósa að gefa börn sín til ættleiðingar, ekki bara foreldra sem kjósa að eignast barnið sitt, heldur líka þær konur og stúlkur sem kjósa þungunarrof. Hér var talað um mikilvægi sálfræðiráðgjafar og ýmislegs í kjölfar ættleiðinga. Ég tel að stúlkur og konur sem kjósa þungunarrof séu ekki í minni þörf fyrir slíkt en aðrir.

Ef við ætlum að fara að útvíkka fæðingarorlof eða fæðingarstyrki held ég að við eigum ekki að binda það við konur og stúlkur sem kjósa að gefa börn sín til ættleiðingar, heldur líka að veita þeim stúlkum og konum sem kjósa þungunarrof sömu greiðslur.