149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er þarft vegna þess að það er lagt fram til að styðja þær konur sem standa í þeim sporum að vilja gefa frá sér börn við fæðingu og að þeim standi bæði félagslegur og fjárhagslegur styrkur til boða. Það má kannski segja að þetta frumvarp sé að hluta til flutt eins og hér var orðað áðan, með leyfi herra forseta, fyrir „grey fólkið sem ekki getur átt börn“. Það er rétt, við finnum til með fólki sem getur ekki eignast börn, við getum það líka þótt við séum karlmenn, og við teljum að við getum gert báðum aðilum gagn, þ.e. líka konu sem ákveður að ganga með barn og gefa það til ættleiðingar, að styðja hana til að hún geti gert það án þess að verða líka fyrir fjárhagslegu tjóni af því, ekki bara tilfinningalegu, þannig að til þess er þetta frumvarp hér lagt fram.

Eins og hér hefur komið fram hefur verið farið allmikið yfir það sem hér fór fram í umræðum um annað mál fyrr á þinginu þar sem orðin, með leyfi forseta, „samviskubits ömurlegu taktík“ komu m.a. fyrir, en ég hef kallað það óþol fyrir skoðunum annarra.

Við sem stöndum að þessu frumvarpi höfum kappkostað að gera það á mjög heiðarlegan hátt. Við áttum von á því, alveg eins og í umræðum um hitt frumvarpið fyrr í vetur, að umræðan um þetta mál yrði tilfinningarík, enda er þetta mál sem snertir tilfinningar mjög margra. Það breytir samt ekki því að ég verð að segja að mér finnst mikill óþarfi að reyna að gera þetta mál tortryggilegt með einhverjum hætti. Mér finnst líka óþarfi að gera fólki upp skoðanir.

Flutningsmaður þessa frumvarps hefur þegar lýst því yfir að hann hafi verið á móti frumvarpinu um fóstureyðingar sem kom fram fyrr á þinginu. Ég lýsti hins vegar yfir stuðningi við það mál í ræðustól Alþingis og ég veit svo sem ekki af hverju ætti ekki að taka það trúanlegt frekar en eitthvað annað sem ég segi hér í þessum stól. Ég lýsti því yfir þar en ég lýsti hins vegar yfir efasemdum yfir tímasetningunni sem þar kom fram, ég lýsti því strax, þannig að ég verð að viðurkenna að mér leiðist að reynt sé að gera aðkomu okkar sem hér stöndum að þessu máli tortryggilega með einhverjum hætti. Ég sé engar forsendur fyrir því.

Þess vegna leggjum við þetta frumvarp fram, við viljum einfaldlega greiða götu þeirra kvenna sem vilja ganga þessa braut sem er ekki auðvelt. Við viljum líka greiða leið þess fólks sem vill ættleiða hér innan lands sem er ekki mjög mikið um. Það má alveg kalla það, með leyfi forseta, „grey fólkið sem ekki getur átt börn“, en það reynist örugglega mjög mörgum mjög þungbært að geta það ekki. Það er ekki réttur að eignast barn, það hefur enginn rétt til þess og sumir eru sem sagt ófærir um það. Þess vegna vilja flutningsmenn þessa frumvarps greiða götu þeirra sem koma að þessu máli, hvaðan sem þeir koma að málinu, og gera þetta ferli sem er erfitt öllum auðveldara en annars væri. Sá einn er tilgangur þessa frumvarps.

Þess vegna vona ég að þegar frumvarpið gengur til nefndar á sínum tíma fái það þar vandaða yfirferð og að kallaðir verði til fagaðilar sem geta sagt kost og löst á málinu þannig að við getum svo að því loknu tekið upplýsta ákvörðun í þessum sal um það hvort við viljum greiða götu þessa frumvarps áfram og gera það að lögum eður ei. Um það snýst málið. Það er svo einfalt.

Svo er bara hægt að hætta að spyrja hvort manni eins og mér finnist ég hafi eitthvert tilkall til að vera með einhverjar yfirlýsingar, eins og fyrr var sagt í umræðunni. Jú, mér finnst það. Þó að ég sé líffræðilega öðruvísi en sumir hérna inni finnst mér að ég eigi að hafa aðkomu og eigi rétt til þess að standa að máli eins og því sem við erum með hérna til meðferðar og ég vona, eins og ég segi, að þetta mál fái brautargengi í þinginu og fái greiða leið í gegnum nefnd að aflokinni vandaðri yfirferð.