149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra fyrir hennar hönd hafa kynnt innlegg sitt í stöðuna á vinnumarkaðnum. Þeim tillögum hefur ekki verið fagnað, a.m.k. af fulltrúum og forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar. Það vakti athygli mína að hæstv. fjármálaráðherra væri þar að tala fyrir því að aftur yrði tekin upp þrjú skattþrep, sem hann hafði útskýrt ágætlega að væri mjög óheppilegt fyrirkomulag og til þess fallið að flækja skattkerfið og gera það verra, enda var skattþrepum fækkað í tvö nýverið.

Það vakti líka athygli, eiginlega furðu mína, að hæstv. fjármálaráðherra skyldi tala fyrir því að samsköttun hjóna yrði afnumin vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði það einhvern tímann í stefnu sinni, ef ég man rétt, að virða störf heimavinnandi fólks. En þetta er búið og gert, þ.e. þessi tilkynning um þessi áform þótt að sjálfsögðu þeim hafi ekki verið hrint í framkvæmd og komi til þingsins að leysa úr því ef ríkisstjórnin sýnir áfram vilja í þá veru.

Ég ætlaði ekki að spyrja um þessi atriði, heldur að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort til greina komi af hans hálfu að fara í viðræður við forystumenn launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins og hvort það geti þannig orðið einhvers konar grunnur að sátt á vinnumarkaði, enda hafa ýmsir aðilar, einkum úr verkalýðshreyfingunni, lýst því að þeir væru tilbúnir að gera slíkar viðræður og sameiginleg áform í þeim efnum að grundvallaratriði er varðar framlag ríkisins til að leysa úr stöðunni á vinnumarkaði. Enda fátt betur til þess fallið að bæta kjör almennings í landinu og fyrirtækjanna en heilbrigðara fjármálakerfi og lægri vextir.