149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég minni hæstv. fjármálaráðherra á að það er hann sem situr hér fyrir svörum. Það er ég sem er að spyrja hann spurninga, en ráðherra kemur hingað upp og spyr mig spurninga og svarar spurningum sem ég spurði ekki.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort til staðar væri vilji hjá honum og eftir atvikum ríkisstjórninni, maður veit ekki hvort það fer saman, til að fara í viðræður við aðila vinnumarkaðarins um framtíðarþróun fjármálakerfisins. Kannski má kalla það nokkurs konar þjóðarsáttarviðræður á þeim grunni því að með því væri hægt að ná raunverulegum kjarabótum og það er til staðar vilji innan verkalýðshreyfingarinnar til að fara í slíkar viðræður. Það er tækifæri sem blasir við, ætti a.m.k. að blasa við stjórnvöldum, til að gera gagngerar breytingar á íslenska fjármálakerfinu núna til að það virki betur fyrir fólkið í landinu og fyrir fyrirtækin.