149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

nýjar úthlutunarreglur LÍN.

[10:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Lánasjóður íslenskra námsmanna er félagslegur jöfnunarsjóður. Hann var settur á laggirnar til að tryggja að ungt fólk frá efnaminni heimilum ætti þess einnig kost að ganga til mennta og auka þannig möguleika sína og fjölskyldunnar á velsæld til framtíðar.

Nú hefur velferðarráðuneytið gefið út lágmarksframfærsluviðmið en einhverra hluta vegna hefur lánasjóðurinn ákveðið að framfærsla stúdenta skuli eingöngu miðast við 96% af þessu þannig að þeir eru undir því lágmarki og þá verður einnig að horfa á það að húsaleigugrunnurinn sem námslán taka mið af er einungis 75.000 kr. Það er miðað við að meðalleiga fyrir námsmann sé 75.000 kr.

Ég spyr hæstv. ráðherra. Veit hún til þess að það sé einhvers staðar hægt að finna húsnæði fyrir slíka fjárhæð? Það er ekki einu sinni hægt á stúdentagörðum þar sem einungis 9% stúdenta hafa komist að þannig að þessi tala er algjörlega út úr korti. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji eðlilegt að miðað verði við markaðsleigu á húsnæði en ekki þessa tölur sem eru algjörlega út í bláinn.