149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

almenn hegningarlög.

543. mál
[12:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra viðraði áhyggjur sínar af þverrandi þolinmæði fyrir skoðunum annarra. Við erum ekki hér að tala um saklausar skoðanir annarra, því að umrætt lagaákvæði, með leyfi forseta, hljóðar svona:

„Hver sem opinberlega rógber, smánar, ógnar eða hæðist að manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar eða breiðir slíkt út skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum …“

Herra forseti. Hér erum við ekki að tala um einhver saklaus skoðanaskipti. Hegningarlagaákvæðið ber ekkert slíkt með sér, ekki neitt. Við erum að tala um einhvern sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum sínum. Orð geta nefnilega meitt mun meira en líkamlegt ofbeldi. Hatursorðræða meiðir ekki bara þann einstakling sem verður fyrir, heldur allan hópinn — allan þann hóp sem verður fyrir hatursorðræðunni. Það er nefnilega þannig. Þannig er verið að jaðarsetja ákveðinn hóp sem viðkomandi einstaklingur sem verður fyrir hatrinu tilheyrir. Það er sá hópur, sá minnihlutahópur, missterkur vissulega, af því að hér var verið að tala um konur, en ríkt hefur ákveðin sátt um að veita þurfi veita þessum hópum (Forseti hringir.) vernd. Það er óskiljanlegt að mínu mati að við höfum tekið ákvörðun um að minnka þá vernd.