149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

almenn hegningarlög.

543. mál
[12:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að halda áfram með umræðu um þessar skoðanir og litla þolinmæði fyrir skoðunum annarra. Þá langar mig að fá aðeins að rýna í tvo dóma Hæstaréttar sem féllu á þarsíðasta ári, 2017, sem ég vísaði til í fyrri ræðu minni, og sem vísað er til í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu hegningarlaga. Það er alveg ljóst af lestri þessara tveggja dóma að þarna er hreint ekki verið að hafa uppi einhverjar saklausar skoðanir um kennslu í hinsegin fræðum, hreint ekki, heldur er beinlínis verið að níðast á fólki.

Sú skoðun sem dæmt var fyrir er svona, með leyfi forseta:

„Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar A á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. A getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð.“

Ég verð að segja að ég er eiginlega sammála (Forseti hringir.) Hæstarétti, sem dæmir fyrir þessa hatursorðræðu. Mér finnast þetta ekki saklaus skoðanaskipti (Forseti hringir.) og viðkomandi getur vissulega haldið þessum (Forseti hringir.) skoðunum heima hjá sér. En að fara með þetta í fjölmiðla (Forseti hringir.) finnst mér bara mjög meiðandi (Forseti hringir.) og það hefur mjög meiðandi áhrif á stóran hóp fólks.