149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[12:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég hef oft verið hrifinn af því sem hefur komið frá hæstv. ráðherra frá því að ég settist á þing en þetta frumvarp veldur mér nokkrum vonbrigðum. Jafn hissa og ráðherrann virðist vera á því þá er það nú staðreyndin. Ég upplifi það þannig að þetta sé líklegra til að vera undirbúið af félagasamtökum eins og Vantrú og flutt af stjórnmálaafli eins og Pírötum, sem dæmi, með fullri virðingu fyrir þeim. En ég tel líklegt að þeir væru fylgjandi mörgu sem þarna kemur fram.

Mig langar til að spyrja ráðherrann um tvennt í þessum efnum. Það er samráð við kirkjuna eða kirkjuþing. Af greinargerðinni að dæma get ég ekki ályktað annað en svo að kirkjuþing hafi verið að horfa til málsins miðað við það að þessar breytingar færu inn í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Hefur kirkjan gefið út afstöðu sína gagnvart þessari nálgun, að setja þetta inn í lög um 40 stunda vinnuviku? Mér þætti áhugavert að heyra þá afstöðu því að svo eru taldir upp ýmsir aðilar, ýmis samtök atvinnulífsins og launþega. Það er auðvitað samráð sem á sér fyrst og fremst stað á forsendum vinnuréttarlegra sjónarmiða en ekki á grundvelli helgidagafriðar. Ég myndi vilja fá að byrja á að spyrja hæstv. ráðherra um þetta.