149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[12:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Til viðbótar við þetta er atriði sem ég sé ástæðu til að nefna sérstaklega er hér verið, nái þetta fram að ganga, að færa upptalningu þessara frídaga úr lögum um helgidagafrið yfir í lög um 40 stunda vinnuviku. Þá er rétt að benda á það sem kemur fram í samráðshluta greinargerðarinnar, með leyfi forseta:

„Samtök atvinnulífsins telja lög um 40 stunda vinnuviku vera barn síns tíma og telja rétt að lögin verði felld úr gildi …“

Ja, hvað þá, hvað svo? Ætlum við þá að flytja þetta til baka verði það niðurstaða á næstu misserum að lög um 40 stunda vinnuviku verði afnumin? Það má vera en ég held að svona hringl sé ekki til bóta. Ég held að almennt sé æskilegt að miða við, ætli menn að gera breytingar, að þær séu þá til bóta.

Ég hef ekki upplifað að jafn mikið sé þrengt að atvinnulífinu á þessum tilteknu frídögum eins og virðist skína í gegn af lestri greinargerðarinnar. Það væri áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða þjónusta það er helst sem hún sér fyrir sér að bætist í flóruna á þessum dögum sem við höfum orðið af hingað til.

Ég verð að viðurkenna að helst man ég eftir árlegri frétt um bingóspil sem ekki má fara fram en hann er ekki miklu alvarlegri en það, sá þjónustuskortur sem hrjáir okkur landsmenn að mínu mati. Ég held að það væri áhugavert að heyra hvernig ráðherrann sér mál þróast hvað þetta varðar, hvaða þjónusta það er sem almennir borgarar hafa orðið af vegna þessara reglna.