149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

555. mál
[14:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, 555. mál á þessu þingi.

Frumvarpið er samið í þeim tilgangi að setja ein heildarlög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum á sviði löggæslu, ákæruvalds og fullnustu refsinga. Með frumvarpinu er jafnframt verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/680, frá 27. apríl 2016, um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og um niðurfellingu rammaákvörðunar ráðsins nr. 2008/977/DIM, svonefndrar löggæslutilskipunar.

Sú tilskipun er hluti af hinum svokallaða gagnaverndarpakka Evrópusambandsins sem auk tilskipunarinnar hefur að geyma hina almennu persónuverndarreglugerð nr. 2016/679, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, sem þingheimur þekkir mjög vel enda var sú tilskipun innleidd með lögum nr. 90/2018.

Tilskipunin sem um ræðir í þessu máli er þó ekki hluti af samstarfi okkar á vettvangi EES heldur telst þetta vera þróun á ákvæðum Schengen-réttarreglnanna í samræmi við samninginn sem ráð Evrópusambandsins gerði við Ísland og Noreg um þátttöku þessara tveggja ríkja í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna.

Stjórnvöldum ber því að innleiða efni hennar í íslenskan rétt á grundvelli þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Með innleiðingunni, með setningu sérstakra laga, er óhætt að segja að frumvarpið feli í sér mikla réttarbót enda er um fyrstu heildstæðu löggjöfina um persónuvernd á sviði refsivörslu að ræða. Þar sem efni frumvarpsins er sniðið að eðli og þörfum viðkomandi stjórnvalda mun það búa til skýrari ramma utan um meðferð á persónuupplýsingum, tryggja réttindi einstaklinga og auka gagnsæi í samskiptum borgaranna við umrædd yfirvöld.

Hvað gildissvið frumvarpsins varðar tekur það til allra yfirvalda sem hafa lögum samkvæmt hlutverki að gegna á sviði refsivörslu og teljast þannig lögbær í skilningi frumvarpsins. Eru þau tæmandi talin í frumvarpinu en meðal þeirra er embætti ríkislögreglustjóra, lögregluembættin, Landhelgisgæslan, tollstjóri og Fangelsismálastofnun. Viðkomandi stjórnvöld munu því koma til með að starfa eftir hvorum tveggja persónuverndarlögunum, þ.e. lögunum sem ég nefndi áður, nr. 90/2018, um persónuvernd. Það sem sker úr um hvor lagabálkurinn gildi um tiltekna vinnslu persónuupplýsinga er hvort vinnslan fari fram í svonefndum löggæslutilgangi eða ekki, en það hugtak er sérstaklega skilgreint í frumvarpinu. Í því sambandi skal nefnt að frumvarpið felur Persónuvernd — þ.e. stofnuninni — allt eftirlit með framkvæmd laganna og kemur það því á endanum í hlut stofnunarinnar að skera úr um hvor lögin skuli gilda komi upp vafi þess efnis.

Efni frumvarpsins er að mörgu leyti sambærilegt efni persónuverndarlaganna sem samþykkt voru á síðasta ári en meginmunurinn er þó, eins og ég nefndi áður, að efni þess er sérstaklega sniðið að starfi hinna lögbæru yfirvalda. Þannig gilda að miklu leyti sömu meginreglur um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt frumvarpinu og samkvæmt persónuverndarlögunum, auk þess sem sambærilegar reglur gilda um ábyrgðar- og vinnsluaðila persónuupplýsinga og eftirlit með þeim. Á hinn bóginn má nefna sem dæmi að ákvæði frumvarpsins um rétt einstaklinga til aðgangs að persónuupplýsingum taka sérstakt mið af sjónarmiðum um vernd, rannsóknir og löggæsluhagsmuni og eru þar af leiðandi með tilheyrandi takmörkunum.

Með tilliti til þess hversu viðkvæmar persónuupplýsingar er unnið með almennt á því sviði eru gerðar auknar öryggiskröfur um aðgang einstakra starfsmanna að upplýsingum og rekjanleika aðgerða í þeim upplýsingakerfum sem stjórnvöld notast við. Þá er í frumvarpinu kveðið sérstaklega á um heimildir lögbærra yfirvalda til að miðla persónuupplýsingum innan og sín á milli í því skyni að greiða fyrir nauðsynlegu upplýsingaflæði.

Jafnframt er kveðið á um heimildir til að miðla persónuupplýsingum til annarra opinberra aðila og einkaaðila, en umræddar miðlunarheimildir koma til viðbótar við þær heimildir sem viðkomandi yfirvöld hafa nú þegar samkvæmt lögum.

Þá eru að lokum lagðar til breytingar á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum. Þar er annars vegar kveðið á um heimildir lögreglu til að vinna og miðla persónuupplýsingum almennt en ákvæðinu er ætlað að veita þeim heimildum sem lögreglan hefur nú þegar formlegri lagastoð. Hins vegar er mælt fyrir um heimild lögreglu til að miðla upplýsingum um farþega og áhafnir flugvéla og annarra fara til erlendra yfirvalda til að koma í veg fyrir hryðjuverk eða önnur alvarleg afbrot.

Lögregla og tollstjóri hafa nú þegar heimild samkvæmt tollalögum til að safna þessum upplýsingum en nauðsynlegt er að lögregla hafi jafnframt heimild til að miðla þeim til erlendra yfirvalda, enda telst það grundvallarforsenda fyrir því að íslensk stjórnvöld geti tekið þátt í alþjóðasamstarfi á því sviði.

Virðulegur forseti. Ég vísa að öðru leyti til frumvarpsins sem hér liggur frammi og athugasemda með því og legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar og menntamálanefndar og 2. umr.