149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.

44. mál
[18:22]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að ganga í að flytja þetta mikilvæga mál sem fjallar um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Eins og hv. flutningsmaður kom inn á hefur þessi tillaga áður komið fyrir þingið. Hún felst í því að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur og finni leiðir til að auka notkun á þessum reglum.

Jafnframt er tilgreint um hverjir eigi að vera í þessum starfshópi, en samkvæmt þessu á það að vera samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu, Alþýðusambands Íslands og Viðskiptaráðs Íslands, og verði ráðherra falið að skipa formann. Ég held að það sé mjög jákvætt fyrir okkur að fara í þessi mál, því að oft er sagt að við Íslendingar höfum ekki nægilega sterka neytendavitund. Það er nokkuð sem við megum efla. Þó hefur hún eflaust fari batnandi og vaxandi á einhverjum sviðum, en ekki öllum.

Ég ætla að fá að grípa aðeins niður í greinargerðina, með leyfi hæstv. forseta:

„Neytendavitund almennings er almennt ábótavant þótt hún fari vaxandi á sumum sviðum. Almenna reglan í neytendakaupum er sú að neytandi á ekki lagalegan rétt á að skila ógallaðri vöru sem hann hefur fest kaup á. Undantekningu frá þessari reglu er að finna í lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016, en skv. 17. gr. þeirra rennur frestur til að falla frá samningi út fjórtán dögum eftir að gengið var fá samningi um kaup á vöru eða þjónustu.“

Þetta er hin almenna regla, en svo eru í gildi einhverjar viðmiðunarreglur, verklagsreglur, um þessi mál. Meginatriði verklagsreglnanna eru þau að, með leyfi forseta:

Neytendur eiga a.m.k. 14 daga skilarétt, vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil, inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru, gjafabréf og inneignarnótur skulu gilda í allt að fjögur ár frá útgáfudegi og skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið.

Hafa ber að hafa í huga að þessar verklagsreglur eru einungis til viðmiðunar eða leiðbeinandi, eins og sagt er, og er verslun því ekki skylt að fara eftir þeim. Í því felst líklega vandinn í öllum þessum málum að ekki er samræmi á milli söluaðila. Þess vegna eiga neytendur erfitt með að fylgjast með og þekkja stöðu sína og hvaða rétt þeir hafa. Því held ég að það sé mjög mikilvægt að fara í þessi mál til að jafna rétt kaupenda. Það er mismunandi eftir verslunum og söluaðilum hvort gildistími á inneignarnótum er ákveðinn af verslunum. Það eru ekki bara verslanir sem hér um ræðir. Ég þekki t.d. að fólk er stundum að reyna að losa sig við gjafabréf fyrir flugferðir þegar er komið að síðustu dögum gildistímans, af því að þar er ákveðinn rammi utan um og eflaust mætti tína ýmislegt fleira til.

Um gildistíma inneignar- og gjafabréfa má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Gildistími gjafabréfs og inneignarnótu gagnvart seljanda, og þeim sem hann kann að framselja verslunarrekstur sinn til, er allt að fjögur ár frá útgáfudegi nema um annað sé samið.“

Það er algerlega opið og gildistíma inneignarnótu má stytta í allt að eitt ár samkvæmt leiðbeinandi verklagsreglum um inneignarnótur.

„Sé gildistími styttri en fjögur ár skal taka það sérstaklega fram við útgáfu inneignarnótunnar sem og á nótunni sjálfri.“

Þannig að það getur bara verið alla vega.

Einnig segir:

„Komi nýr eigandi að fyrirtæki gilda gjafabréf og inneignarnótur enn sem fyrr gagnvart þeim sem seljandi framselur verslunarrekstur sinn til. Ef um er að ræða annað fyrirtæki er hins vegar ekki hægt að gera kröfu.“

Þannig að þarna getur ýmislegt fallið milli skips og bryggju.

Jafnframt segir:

„Verði seljandinn gjaldþrota á gildistímabili gjafabréfs eða inneignarnótu er hægt að gera kröfu í þrotabúið. Sú krafa er hins vegar sjaldnast mikils virði. Komi ný verslun í stað þeirrar sem varð gjaldþrota er ekki hægt að gera kröfu á hendur henni þar sem um er að ræða annað fyrirtæki.“

Þannig að menn geta hreinsað borðið hjá sér.

„Gjafabréf og inneignarnótur gilda að öðru leyti samkvæmt þeim forsendum sem um er samið.“

Þannig að eftir stendur að gildistími á inneignarnótu er ákveðinn af versluninni sjálfri. Það er ekki gott og ekki gott fyrir neytendur. Nú er kominn reynslutími upp á 17 ár á þessum reglum og er eðlilegt að uppfæra þær í takt við nýja verslunarhætti og nýtt umhverfi sem við búum við.

Það hlýtur að teljast vera gott fyrir neytendur ef við náum að efla vitund þeirra og skilning á því að flestar verslanir og söluaðilar styðjist við sömu reglur og ramma þegar kemur að þessu. En reglurnar þurfa að vera skýrar og þær þurfa að vera aðgengilegar, af því að með samræmingunni erum við að tryggja rétt neytenda betur með samræmdum hætti. Þá hlýtur það að leiða til aukinnar vitundar um réttindin, eins og fram hefur komið. Það mun hafa mjög margvísleg jákvæð áhrif fyrir verslun í landinu og styrkja hana, því að eins og við þekkjum öll þá eru landsmenn farnir að versla meira á netinu, versla fyrir utan verslunarsvæði okkar hér á landi og jafnvel fyrir utan evrópska svæðið. Þar gilda aðrar reglur og er erfitt að verja rétt sinn þegar kemur að því.

Ef við náum þessu fram held ég að við styrkjum íslenska verslun, ég bind vonir við það, af því að það hlýtur að vera gott fyrir alla atvinnurekendur hér á landi og neytendur að þeir viti að hverju þeir ganga til skemmri tíma. Eflaust er líka oft hagstæðara að versla í útlöndum. Hægt er að finna eitthvað á hagstæðara verði, en eftir stendur að maður er kominn með vöru í hendurnar sem maður hefur enga möguleika á að skila eða losa sig við af því að það er ekkert sem heldur utan um það og skyldur seljandans eru engar í því tilfelli.

Svo er annað, t.d. í kringum jólaverslun, eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson kom inn á áðan. Þá eru skilyrðin sem verslunin setur um skilafrest og annað slíkt mjög mismunandi. Fólki er mismunað. Fólk utan af landi hefur ekki sömu tækifæri að skila jólagjöfunum sem ekki henta eða menn vilja skipta, og jafnvel þó að maður búi ekki úti á landi geta menn að verið í þeim aðstæðum að þeir komist ekki innan mjög skamms tíma til að skila og skipta.

Ég held að það sé bara hið besta mál ef við náum utan um þetta og gerum einhvern veginn skýrara og með meiri samræmingu. Það held ég liggi alveg ljóst fyrir. Ég ætla að leyfa mér að taka undir niðurlagið í greinargerðinni þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Með skýrari framsetningu á verklagsreglum um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur telja flutningsmenn þessarar tillögu að styrkja megi stöðu verslunar hér á landi gagnvart erlendri netverslun þar sem neytendur verði betur meðvitaðir um réttindi sín, þeir geti gengið að samræmdum reglum vísum og þannig aukist öryggistilfinning þeirra við kaupin sem leiði til aukinnar verslunar. Skýrar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur eru þannig neytendum og seljendum til hagsbóta til lengri tíma litið.“

Ég fagna því að þessi tillaga sé aftur komin fram. En hún kallar á samvinnu og samtal fólks. Þeir fulltrúar sem tilgreindir eru hér þurfa þá að koma saman og komast að niðurstöðu um hvernig leysa á þessi mál, gera þau skýrari og taka upp þær verklagsreglur sem gilt hafa í 17 ár og er komin töluverð reynsla á og eru okkur ekki til hagsbóta. Það sem er neytendum til hagsbóta hlýtur líka að hjálpa versluninni, að við getum aukið verslunina og stýrt henni meira hingað heim. Það hlýtur að hjálpa okkur í stóra samhenginu að halda utan um gjaldeyrisforðann og fleira.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu yfirferð.