149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[13:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en þó fyrst og fremst sem formanns eins af þeim flokkum sem mynda hér ríkisstjórn. Það hefur verið mikið í fréttum síðan í síðustu viku þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti tillögur sínar, frumvarp sem leyfir efnislega innflutning á hráu kjöti frá og með 1. september nk. Af þeim fréttum sem borist hafa sérstaklega úr herbúðum Framsóknarflokksins má ætla að menn séu þar tiltölulega efins um þær ráðstafanir sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra horfir til að verði raungerðar fyrir lok vorþings.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra — þó að málaflokkurinn heyri auðvitað ekki undir hann er hann fyrrverandi landbúnaðarráðherra og núverandi formaður stjórnarflokks — hvernig þessi nálgun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra horfi við formanni Framsóknarflokksins, hvort honum þyki nægjanlega langt gengið í því að vernda þá mikilvægu hagsmuni sem þarna er undir. Hvað sér hann fyrir sér að væri hægt að gera öðruvísi? Ég greip það í viðtali við hæstv. samgönguráðherra að málið hefði ekki komið inn á ríkisstjórnarborðið en sér hann fyrir sér að sátt verði um það, miðað við frumvarpið sem kynnt hefur verið, meðal ríkisstjórnarflokkanna?