149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[13:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn um ákaflega mikilvægt efni. Eins og hv. þingmaður kom inn á eru þau viðbrögð sem landbúnaðarráðherra þarf að koma með, og ég hef fullan skilning á að er að koma fram með, við annars vegar hæstaréttardómnum, sem byggði auðvitað á áliti EFTA-dómstólsins um að samkvæmt mati Evrópusambandsins, EFTA-dómstólsins og þar með Hæstaréttar snúist innflutningur á ferskum kjötvörum ekki um möguleika okkar á að verja heilsu búfjárstofna, mannfólks og sérstöðu Íslands hvað það varðar, sem er einstök, heldur snúist þetta fyrst og fremst um brot á samningnum um frjálst flæði vöru yfir landamæri. Þetta verkefni er því tvíþætt. Nú er það í samráðsgátt og verður öllum gefið tækifæri á að koma með athugasemdir áður en ráðherrann bregst við og kemur með frumvarpið bæði fyrir ríkisstjórn og til þingsins.

Við Framsóknarmenn teljum að nauðsynlegt sé að bregðast við af talsverðri hörku í málinu en það getur verið að við þurfum einfaldlega að horfa á þetta sem tvö mál. Annars vegar er að bregðast við hæstaréttardómnum, sem ráðherrann er að gera. Það mun að lokum koma til kasta þingsins að ganga frá því eins tryggilega og hægt er, eins langt og við getum gengið og ég er tilbúinn að ganga býsna langt þar og væri áhugavert að taka það samtal hér. Hins vegar er málið sem varðar lýðheilsu okkar Íslendinga um þann sjálfstæða rétt okkar að verja einstaka og mjög sérstæða heilsu búfjár og sjúkdómastöðu á Íslandi sem við erum líka með alþjóðlegar skuldbindingar um, bæði um líffræðilegan fjölbreytileika en eins um þá búfjárstofna sem hér búa. Evrópusambandið hefur ekki léð máls á að skilja þann hluta málsins og ég tel að við eigum að taka það upp og gera samhliða.