149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í henni með okkur. Það er rétt að ferðamannaiðnaðurinn er orðinn eitt mesta hagsmunamál okkar, stærsti atvinnuvegur okkar. Það er mjög gott að ræða hvernig við höfum hingað til horft til þess hvernig við getum dreift ferðamönnunum um landið þannig að allir fái notið.

En mér finnst eiginlega ekki hægt annað en að ræða þann alvarleika sem við horfumst í augu við núna, sem blasir við ferðaþjónustunni. Hér er farið að boða til skæruverkfalla og annars slíks sem á einungis að beina að ferðaþjónustunni. Hversu alvarleg áhrif slíkar aðgerðir eiga síðan eftir að hafa á ferðaþjónustuna og allt hagkerfið vitum við ekki. Ég tel ábyrgð ríkisstjórnarinnar mjög mikla. Mér finnst ábyrgð okkar hér, löggjafans, líka gríðarlega sterk að því sem lýtur að reyna a.m.k. að koma til móts við þær kröfur sem verið er að gefa út í samfélaginu og reyna að vernda þá mikilvægu auðlind okkar sem ferðamannaiðnaðurinn er. Það er þegar komið í ljós að fólk er farið að afboða ferðir.

Ég skora á stjórnvöld að virkilega vernda ferðamannaiðnaðinn okkar og gera okkur kleift að halda áfram að efla hann og byggja hann upp eins og hugur og vilji hefur staðið til.