149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er rétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason segir, að ég var sakir lasleika fjarverandi þegar þetta nefndarálit var afgreitt, en það breytir þó ekki því að ég hef ekki talið koma til greina að kvitta upp á þetta álit. Mér þykir reyndar heldur óviðurkvæmilegt að Seðlabanki Íslands skuli setja þinginu hálfgerða afarkosti um að afgreiða eigi þetta mál í dag, ella geti eitthvað mjög óljóst gerst. Skýringar bankans á því finnast mér ekki alveg trúverðugar. Þar er gefið til kynna að núna, loksins þegar ákveðnir eigendur skuldabréfa séu búnir að vera lokaðir inni í höftum í 10 ár, muni þeir gjarnan vilja vera áfram bara ef þeir fái að endurnýja skuldabréfin á þessum tiltekna degi.

Og svo fæ ég ekki betur séð en að á sama stað komi fram það álit Seðlabankans að markaðsaðilar hafi af því áhyggjur að lítil ásókn erlendra fjárfesta sé í íslenskum skuldabréfamarkaði nú um stundir, en dregur samt þá ályktun að það hljóti helst að vera þeir sem eru búnir að brenna sig verst og vera hér í 10 ár, sem muni hafa áhuga á að fjárfesta í innlendum skuldabréfamarkaði. Ég fæ þetta ekki alveg til að ganga upp, þessar skýringar Seðlabankans. Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar brella til þess að þetta stóra grundvallarmál í uppgjörinu eftir losun hafta renni í gegnum 2. umr., atkvæðagreiðslu og 3. umr., á einum degi.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann taki undir þessi rök Seðlabankans, ef rök skyldi kalla, og telji að fyrir vikið (Forseti hringir.) séu menn ekki tilbúnir til að fara í þessa haftalosun af því að þeir bindi vonir við það að þeir sem hafa (Forseti hringir.) verið lokaðir hér inni muni vilja vera áfram.