149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar hefur verið fjallað um það frumvarp sem við fjöllum hér um, í fyrsta lagi þegar sérfræðingar fjármálaráðuneytisins fóru yfir efnisatriði frumvarpsins. Í máli þeirra kom fram þessi dagsetning, 26. febrúar, þannig að það var ekki Seðlabankinn einn sem ákvað hana. En látum það nú liggja milli hluta. Síðan voru gestir fengnir á fund, Seðlabanki Íslands. Það voru ekki margar umsagnir, eins og ég gat um, bara þrjár umsagnir. Og raunar, svíki minni mig ekki, þá átti hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stuttlega orðastað við seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku, m.a. um þetta mál. Þau svör sem seðlabankastjóri gaf voru tiltölulega skýr.

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hugleiðingar hv. þingmanns. Þegar mælt var fyrir frumvarpinu hér í janúar, en ekki í desember eins og að var stefnt — ef upplýsingar mínar eru réttar var því fyrst og fremst frestað vegna andstöðu þingmanna Miðflokksins að frumvarpið færi til nefndar fyrir jól og fengi þar þinglega meðferð. Það var því gert (Forseti hringir.) í janúar. Ekki einn einasti þingmaður flokksins tók þátt í þeirri umræðu, 1. umr.

Ef (Forseti hringir.) málið er jafn viðamikið og eins afgerandi eins og hv. þingmaður vill (Forseti hringir.) vera láta, velti ég fyrir mér hvort hann (Forseti hringir.) hefði þá ekki átt að (Forseti hringir.) taka fyrr til máls, m.a. í 1. umr. og í störfum nefndarinnar.

(Forseti (GBr): Forseti áréttar enn við hv. þingmenn að virða hin knöppu tímamörk sem öllum eru ljós.)