149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í hnútukast við hv. þingmann um hvað gerðist hér fyrir jól en þó er rétt að halda því til haga að það var ásetningur hæstv. fjármálaráðherra að fá að mæla fyrir frumvarpinu og senda það til efnahags- og viðskiptanefndar þannig að nefndin gæti sent það út til umsagnar og tekið sér síðan þann tíma sem nauðsynlegur væri til að afgreiða það mál. Það tókst ekki af ástæðum sem hv. þingmaður veit um og átti þar stærstan hlut að máli.

En látum það liggja á milli hluta. Það er hans réttur og engin ástæða til að gera athugasemd við það. Ég geri hins vegar athugasemd við að hv. þingmaður hefur síðan, eftir að hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu — ég get skilið að einhverjir höfðu ekki svigrúm til að taka þátt í þeirri umræðu, í 1. umr., á þeim tíma. Ég get hins vegar ekki skilið, sérstaklega ekki í ljósi þess ágæta samstarfs sem ég og hv. þingmaður höfum átt í þingsal og ekki síst í efnahags- og viðskiptanefnd, að hv. þingmaður skuli aldrei hafa fært það í mál í nefndinni að hann teldi að skoða þyrfti einhver ákveðin efnisatriði í frumvarpinu — ekki á einum einasta fundi. (SDG: Hvað tókstu það oft fyrir?) — Þrisvar, hv. þingmaður, á þremur fundum. Það er alltaf möguleiki, eins og hv. þingmaður veit mætavel, (Forseti hringir.) að taka upp öll mál undir liðnum önnur mál í efnahags- og viðskiptanefnd, á hverjum einasta fundi. (SDG: Við … ræða málin. …)