149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni og formanni nefndarinnar fyrir að fara yfir málið. Ég hef aðeins áhyggjur af því að hv. þingmaður virðist frekar kjósa að fara í manninn en málefnið og skipar sér þannig í flokk nokkurra annarra þingmanna hér á Alþingi.

Mig langar hins vegar spyrja hv. þingmanninn, því að það kom fram í ræðu hans, eins og ég skildi hann, að hann teldi þetta ekki svo viðamikið mál, hvort ég hafi heyrt rétt, að þetta mál sé ekki mjög viðamikið. Ég velti því fyrir mér hvenær mál sem þessi eru orðin stór og mikil, hvað þurfi marga milljarða tugi undir, hver verðmiðinn í krónum eða evrum þurfi að vera þegar mál eru viðamikil.

Auðvitað er þetta viðamikið mál. Mig langar líka að spyrja þingmanninn að því hvort það sé ekki eitt af þeim skrefum sem skrifuð voru inn í plan um afnám fjármagnshaftanna. Telur þingmaðurinn að enn sé verið að fylgja þeirri áætlun eða að vikið hafi verið út frá þeirri áætlun með þessu frumvarpi?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því hvort orðið hafi veruleg stefnubreyting á því hvernig menn ætla að vinna úr eftirmálum hrunsins. Ég ætla ekki að fullyrða neitt.

Sú áætlun sem hér var samþykkt á sínum tíma og unnið var eftir var mjög skýr og öflug. Dagsetningar voru skrifaðar inn í hana og síðar voru reyndar skrifaðar inn í hana ákveðnar hugmyndir um verð út frá ákveðinni peningaupphæð og slíku.

Ég spyr þingmann hvort hann telji að farið hafi verið eftir þessari áætlun að fullu og hvenær mál séu orðin viðamikil, þar sem hann telur þetta greinilega ekki vera viðamikið mál.