149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að ég hafi ekki að orðað hlutina með þeim hætti að það hafi mátt skilja það sem svo að ég líti ekki á þetta mál sem viðamikið.

Ef svo hefur verið þá skal það nú leiðrétt. Auðvitað er þetta viðamikið mál. Þetta mál snýr að því að við erum núna að taka eitt af lokaskrefunum í því að afnema fjármagnshöft. Það var alltaf uppleggið. Það var uppleggið hjá ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í sem ráðherra og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra í. Hér er verið að fylgja því eftir.

Það kemur mér satt að segja verulega á óvart að þessir tveir hv. þingmenn skuli ekki vera í hópi þeirra sem fagna því að verið sé að stíga það skref sem við stígum nú. Þetta er eitt af lokaskrefunum í afnámi haftanna sem hv. þingmenn tóku þátt í og mótuðu, sérstaklega hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra, hann tók þátt í að móta þá stefnu sem unnið hefur verið eftir og skilar alveg ótrúlegum árangri. Við erum bara að fylgja því eftir, taka lokaskrefið.

Ég hefði haldið að fátt ætti nú að gleðja meira þessa tvo góðu vini mína, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson og hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson.