149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera með einhverja útúrsnúninga. Ég veit auðvitað ekki hvaða væntingar hv. þingmaður hafði þegar hann var í ríkisstjórn og tók þátt í að semja þau lög sem við erum núna að breyta, þ.e. lög nr. 37/2016, um aflandskrónueignir. Það er hins vegar alveg ljóst þegar við horfum yfir það þá voru aflandskrónueignir 319 milljarðar. En skref fyrir skref, með losun fjármagnshaftanna er staðan núna 84 milljarðar. Við höfum sem sagt farið úr 15% af vergri landsframleiðslu niður í 3,1%. Ég held að það sé nú bara ágætur mælikvarði á að við höfum náð töluvert góðum árangri.

Ég skora á hv. þingmann að fara inn á vef Alþingis og hlusta á þau orðaskipti sem voru á milli seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, og hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, m.a. um hvort það gæti verið að einhverjir þeir aflandskrónueigendur sem eftir eru högnuðust mikið. Vegna þess að það virðist vera aðaláhyggjuefnið sem hér er um að ræða.

Það svar var alveg skýrt. Þeir hafa ekki hagnast, a.m.k. ekki fram að þessu. Það er alveg ljóst. Þeir hafa ekki hagnast neitt sérstaklega á því að vera með fé sitt bundið á litlum eða engum vöxtum í öll þessi ár, í næstum áratug, og ekki getur nokkrum manni dottið í hug að það sé ætlun okkar hér að binda menn í höftum í 10, 15, 20, 30 ár, sem gengur gegn auðvitað þeim alþjóðlegu samningum sem við höfum gert og hv. þingmaður þekkir jafnvel enn betur en ég sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra.