149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er öllum ljóst að ríkisskuldabréfaflokkurinn RIKB 190226 er að renna út á tíma í dag. Því hefur skapast ákveðin hætta á því að fari þetta frumvarp ekki í gegn í dag geti það leitt til einhvers konar áfalls fyrir hagkerfi Íslands og ríkissjóð upp á verulegar fjárhæðir, jafnvel tugi milljarða króna, ef til vill strax á morgun. Nú sýnist mér á mælendaskránni að Miðflokkurinn sé að skipa sér í málþófsgír til að tefja málið, ýmislegt sem bendir til þess. Þá fer maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn sé.

Í 10. gr. siðareglna Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi nú, eins og hann hafði fyrir nokkrum árum, eins og alþjóð veit, persónulega hagsmuni sem tengjast meðferð þessa þingmáls. Ef svo er ekki langar mig til að spyrja: Í þágu hvaða markmiða eða hagsmunaaðila er Miðflokkurinn núna að reyna að tefja framgang þessa máls?