149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Því virðast vera fá takmörk sett hversu ógeðfelld framganga Pírata getur orðið á Alþingi. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að siðanefnd fari að fjalla aðeins um Pírata og hvernig þeir starfa, ekki bara eineltiskúltúrinn innan þeirra raða, heldur líka framkomu þeirra við aðra þingmenn. Auk þess sem forsendur spurninga hv. þingmanns eru auðvitað fráleitar, því að hann gat ekki útskýrt sjálfur, ekki frekar en formaður efnahags- og viðskiptanefndar, í hverju þetta hugsanlega tugmilljarða tjón fyrir landið ætti að felast, enda rökleysa. Það er rökleysa ef það er mat Seðlabankans og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að hægt sé að aflétta höftum, að menn ætli þá að treysta á sama tíma á að þeir sem hafa verið lokaðir hér inni í höftum muni áfram vilja vera með sömu fjárfestingu og þeir hafa verið bundnir við í 10 ár. Enda ef höftunum er ekki aflétt og menn taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið, þá geta vogunarsjóðir ekki hreyft sig, þá sitja þeir áfram fastir.

Ég hef sannarlega engra hagsmuna að gæta hjá vogunarsjóðum, eins og hv. þingmaður á að geta gert sér grein fyrir.

En ég ítreka það, mér finnst framganga Pírata hér á Alþingi undanfarnar vikur, undanfarna mánuði, og reyndar kannski dálítið mörg ár, vera fyrir neðan allar hellur.