149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Grundvallaratriði í þessu, eins og margítrekað kom fram þegar heildaráætlunin var kynnt, var að þetta þyrfti allt að haldast í hendur. Það væri ekki hægt að ætlast til þess að ákveðnir aðilar, sem svo myndu njóta góðs af afléttingu hafta, legðu sitt af mörkum en aðrir þyrftu þess ekki að sama skapi. Með öðrum orðum, að það sem kallað er eftirlegukindur í kynningu stjórnvalda sé eitthvað sem þurfi að koma í veg fyrir, að menn sjái sér ekki hag í því að halda að sér höndum og neita að leggja það til sem þurfti að koma frá öllum til að réttlæta afléttingu haftanna. Íslenskur almenningur hafði þegar lagt sitt af mörkum. Það var grundvallaratriðið í þessu að þær aðgerðir sem farið yrði í tækju mið af því og ekki yrðu lagðar auknar álögur á almenning. En í tilviki slitabúanna og aflandskrónueigenda þyrfti þátttöku allra. Til að mynda hefði verið ómögulegt að eitt slitabúanna ákvæði einfaldlega að taka ekki þátt í haftalosuninni, leggja ekki til stöðugleikaframlögin, treysta á að aðrir gerðu það og njóta ávinningsins af sterkara gengi í framhaldinu. Slíkt var augljóslega ekki hægt að heimila. Þess vegna var farin sú leið að boða stöðugleikaskatt sem yrði lagður á þá sem ekki féllust á að taka þátt í stöðugleikaframlögum.

Og rétt eins og gerð er grein fyrir hér áttu uppboðin og fyrirkomulag þeirra að vera til þess fallin að ná sömu niðurstöðu þar, tryggja með öðrum orðum að menn færu ekki betur út úr því að neita þátttöku, heldur þvert á móti sæju sér hag og nauðsyn í því að taka þátt. Þess vegna er óeðlilegt að verðlauna þá sem gerðu það ekki.