149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst einmitt um trúverðugleika. Þetta snýst um trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. Það sem hefur gerst hér frá því að stjórnvöld byrjuðu að víkja frá því sem var kynnt sem plan sem yrði klárað er að menn hafa jafnt og þétt áttað sig á því að með sinni hagsmunagæslu á Íslandi gætu þeir a.m.k. komist að samningaborðinu og fengið hagkvæmari kjör en þeim höfðu staðið til boða. Ef stjórnvöld ætla svo að lokum einfaldlega að aflétta höftum einhliða erum við með því að draga úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda.

Hver mun trúa því næst þegar íslensk stjórnvöld kynna áform og segja: Svona verður þetta. Þetta er mál sem varðar þjóðarhag, allir þurfa að taka þátt og það gerist á þessum forsendum. En svo kemur á daginn að því er ekki fylgt. Það er ekki klárað.

Ég ætla að lesa aftur fyrir hv. þingmann, af því að hann nefndi það sérstaklega að menn hefðu getað vænst þess, þeir sem vildu bíða, að hagnast hugsanlega á því. En í upprunalegu kynningunni kemur fram að kjör „versna yfir tíma og gera það að óverjandi kosti fyrir fjármagnseigendur að velja vaxtalausa reikninga til frambúðar.“

Málinu var bara ekkert fylgt eftir í samræmi við þetta upplegg heldur sáu menn jafnt og þétt að þeir högnuðust þeim mun meira eftir því sem þeir sýndu meiri mótþróa við planið og knúðu á um meiri og meiri breytingar. Það sýnir ferill málsins, eins og ég mun rekja nánar á eftir, og endar þá í því að þeir sem voru þrjóskastir, eftirlegukindurnar, eru verðlaunaðir sérstaklega með einhliða afléttingu hafta.