149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann rakti það að þarna er sú mesta eftirgjöf sem hægt er að hugsa sér. Hún er framkvæmd nákvæmlega gagnvart þeim sem erfiðastir reyndust og síst viljugir til að taka þátt í áætluninni frá árinu 2015, svo gjörhugsuð sem hún var.

Ég leyfi mér að rifja upp að það reyndi mjög á stjórnvöld eftir hrunið þegar upp risu aðilar sem beittu fyrir sig ólögvörðum kröfum, svokölluðum Icesave-peningum. Það er eins og ekki hafi vantað fólk hér sem tók undir með þessum kröfuhöfum, og jafnvel fram á þennan dag, sem voru ekki einu sinni kröfuhafar, því að þetta voru ólögvarðar kröfur. En menn tóku undir að Íslendingar ættu einhverjar skyldur til að inna einhverjar greiðslur af hendi vegna þessara krafna, umfram það sem þessar kröfur stóðu í hinum fallna banka, Landsbanka Íslands.

Þær stundir koma að menn verða að sýna úr hverju þeir eru gerðir og standa gegn svona háttalagi. Auðvitað er það mikil freisting fyrir marga að leggjast á þá sem eru fáir og smáir og liggjandi, eins og við vorum eftir hið efnahagslega hrun. En sem betur fer rættist úr og þjóðin sjálf sýndi úr hverju hún er gerð, tók í tvígang rétta ákvörðun í málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.