149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum aflandskrónulosun og frumvarp ríkisstjórnarinnar í þeim efnum sem þarf einhverra hluta vegna að keyra í gegn á einum degi.

Það sem vekur mesta athygli að mínum dómi varðandi frumvarpið er stefnan á bak við það. Forsaga málsins kemur að talsverðu leyti fram í langri greinargerð með frumvarpinu. Margir af aflandskrónueigendum eignuðust kröfur sínar fyrir mjög lágt verð, eins og við þekkjum, sirka 2–5% af nafnverði, með því að kaupa þær í gegnum uppboð á skuldatryggingum stóru íslensku bankanna eftir að þeir fóru í þrot í október 2008. Þeir sem höfðu selt tryggingarnar urðu að greiða þeim sem höfðu keypt þær.

Undirliggjandi eignir fóru svo á uppboð, samkvæmt sérstökum ákvæðum í tryggingasamningunum. Kaupendur voru margir hverjir svonefndir hrægammasjóðir sem sérhæfa sig í að kaupa kröfur á gjaldþrota fyrirtæki og sækja á lönd sem eiga í efnahagslegum erfiðleikum.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ákvað að þeir aðilar yrðu að greiða svokallað stöðugleikaálag til að geta selt aflandskrónur sínar fyrir erlendan gjaldeyri. Það sama gilti um slitabú föllnu bankanna sem afhentu ríkinu miklar eignir. Um þetta má lesa í greinargerð með frumvarpinu.

Allmargir vogunar- og hrægammasjóðir — við höldum okkur við það orðalag vegna þess að það er réttnefni — tóku ekki tilboði ríkisstjórnarinnar þá um kaup á evrum á miklu undirverði og brugðust hinir verstu við. Mörgum eru enn þá minnisstæðar auglýsingarnar sem þeir birtu fyrir kosningarnar haustið 2016 og þekkt er þegar ósáttir kröfuhafar undir nafninu „Iceland Watch“, með leyfi forseta, birtu heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu, réðust á íslensk stjórnvöld og reyndu að hafa áhrif á úrslit kosninga með auglýsingum daginn fyrir kosningarnar.

Lee Buchheit, sem þá var ráðgjafi stjórnvalda, sagði herferð vogunarsjóðanna þekkta en það að blanda sér í kosningar fullvalda ríkis væri einsdæmi. Undir það skal svo sannarlega tekið. Þarna sjáum við þá gífurlegu hagsmuni sem lágu að baki og hvað sjóðirnir voru tilbúnir að seilast langt í þeim efnum. Þeir svifust einskis. Að sjálfsögðu átti að mæta þeim sjóðum með hörku og það var gert í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þá aðferðafræði viðurkenndi íslenskur talsmaður sjóðanna í viðtali við Financial Times. Við sjáum að hér voru íslenskir talsmenn sem unnu gegn íslenskum hagsmunum. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni.

Tilgangurinn var að reyna að sjá til þess að ný ríkisstjórn myndi taka öðruvísi á og fara mýkri höndum um málefni sjóðanna og sýna aðeins meiri sanngirni, að þeirra mati, eins og það var orðað af þeirra hálfu.

Í upphafi árs 2017 fóru kjörin að batna og nú er þeim boðið að fara út á markaðsverði með afganginn þó að íslenska krónan hafi veikst.

Það er því alveg ljóst að eftir að nýjar ríkisstjórnir tóku við, fyrst undir forsæti Sjálfstæðisflokksins og síðan forsæti Vinstri grænna, hafa sjóðirnir verið verðlaunaðir fyrir að fara í slag við Ísland og taka ekki upphaflegu tilboði. Þeir höfðu leitað réttar síns fyrir dómstólum hér og erlendis en tapað þeim málum. Ísland var í fullum rétti til að beita þeim álögum, svo að það sé alveg á hreinu, í fullum rétti.

Og hvað hefur breyst síðan? Hvar eru álögurnar núna, frú forseti?

Bætt kjör vogunarsjóða 2017 og þau sem boðuð eru í frumvarpinu eru því gjöf til vogunarsjóðanna, hrægammanna eins og við segjum. Það liggur engin lagaskylda að baki því. Það vekur reyndar furðu hversu mikill undirlægjuháttur, ef ég leyfi mér að orða svo, ríkir við slíka hrægammasjóði þegar Vinstri grænir eru í forsæti í ríkisstjórn.

Síðan má alveg rifja upp að í fjármálaráðherratíð Vinstri grænna voru vogunarsjóðunum færðir bankarnir á silfurfati og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þurfti að endurheimta þá með róttækum aðgerðum og erfiðum samningaviðræðum.

Frú forseti. Með frumvarpinu er verið að verðlauna þá sem neituðu að vinna með íslenskum stjórnvöldum. Það á ekki að leyfa harðsvíruðustu vogunarsjóðunum að komast upp með þetta. Stjórnvöld hafa gefið eftir, þau hafa ekki staðið í lappirnar eins og þau hefðu átt og eiga að gera. Það er hægt að gefa eftir gagnvart þeim sjóðum sem hafa lagt allt undir til að skaða íslenska hagsmuni en það er ekki hægt að gefa neitt eftir þegar kemur að kjaraviðræðum eða tillögum ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir þeim. Það er ekki hægt.

Frú forseti. Við horfum fram á allt önnur kjör sem þessar aflandskrónur fá að fara héðan úr landi á. Maður spyr sig hvers vegna. Hvers vegna liggur svona á? Það hafa engar skýringar komið fram um það.

Ég verð að segja að lokum í þessari atrennu að maður veltir fyrir sér hvort hér búi eitthvað að baki sem þoli ekki dagsins ljós.