149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek sannarlega undir með honum og hann þekkir það ágætlega af fyrri störfum að mikilvægt er að geta stigið ölduna. Það er nákvæmlega það sem var gert í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, menn stóðu í lappirnar í því máli.

Þið sjáið hvað sjóðirnir voru orðnir örvæntingarfullir. Fyrir kosningar birta þeir auglýsingu, heilsíðuauglýsingu í fleiri en einu dagblaði vegna þess að þeir voru svo hræddir um áfram yrði sú stefna viðhöfð sem var viðhöfð í tíð þáverandi forsætisráðherra, að gefa ekkert eftir. Þetta er fordæmalaust að erlendir hagsmunagæsluaðilar, sem eru kallaðir á erlendu tungumáli lobbíistar, skuli hafa leyft sér að hafa áhrif á kosningar á þennan hátt í fullvalda ríki. Það held ég að sé einsdæmi.

Þess vegna spyr maður sig, og ég spurði réttilega að því í lok minnar ræðu: Er þarna eitthvað sem þolir ekki dagsins ljós? Hvers vegna liggur svona á? Ég hef velt því mikið fyrir mér og get eiginlega ekki svarað þeirri stóru spurningu.

Það vekur líka athygli mína að framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, er hér hvergi. Það er eins og hann hafi flúið af vettvangi þegar hann sá að þetta myndi mæta einhverri andspyrnu, hin hraða yfirferð frumvarpsins í þinginu, sem er óskiljanleg að mínu mati.

Það væri rétt að hv. þingmaður kæmi og svaraði því til hvers vegna liggi svona óskaplega á að keyra málið í gegn. Ég held að hann sé sá rétti til að svara því og vonandi fáum við það frá honum.