149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Hann kastar í raun og veru spurningunni áfram til formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem mælti fyrir nefndaráliti og breytingartillögu. Mér þætti vænt um að hann kæmi í salinn og svarað okkur þeirri einföldu litlu spurningu hvernig standi á þessari aðferðafræði. Maður er með ugg í brjósti yfir henni af fenginni reynslu, t.d. út af því að málið tók U-beygju sumarið 2016 og út af því sem gengið hefur á síðan.

Talandi um að stíga ölduna þá þarf maður að læra það þegar maður er á slíkum vettvangi og þetta kemst upp í vana. Ég hef líka oft sagt að þegar maður ræður sig í skipspláss vill maður ráða sig í pláss þar sem skipstjórinn er góður í því að stíga ölduna og fiskar vel og hugsar vel um áhöfn skipsins og fjölskyldu hennar.

Það finnst mér sá sem var skipstjóri á skútunni á árunum 2013–2016 hafa staðið sig mjög vel í.

Ég hef ekki frekari spurningar til þingmannsins en þakka honum fyrir mjög góða ræðu.