149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þingmanni að það er sérstakt að sjá ekki neina þingmenn í salnum eða í hliðarherbergi nema þingmenn Miðflokksins þegar svo stórt mál er til umfjöllunar. Maður veltir fyrir sér hvort það sé vegna þess að uppgjöfin sé algjör eða vegna þess að þeir hafi ekki áhuga á málinu. Mér finnst að formaður efnahags- og viðskiptanefndar ætti að vera hér, í það minnsta.

Hv. þingmaður talaði um veislu vogunarsjóðanna og er það ágætlega rökstutt og má til sanns vegar færa. Nú er það þannig að hlutverk okkar margra og flestra í hinum nýlega Miðflokki hefur verið að spila vörn fyrir íslenska hagsmuni, alveg síðan árið 2009. Það er allt í lagi af því að vörn er besta sóknin, segir einhvers staðar. Þar af leiðandi vílum við það að sjálfsögðu ekki fyrir okkur.

Í stórum dráttum snýr þetta mál að því sem þingmaðurinn nefndi í ræðu, að stjórnvöld hafa ákveðið að færa vogunarsjóðunum ákveðna aura eða eignir, hvað sem við köllum það, með því að sætta sig við upphæðir eða verð á aflandskrónum sem við teljum og höfum talið allt of lágt.

Hv. þingmanni nefndi mun á þessum 84 milljörðum, 11–15 milljarða mun vegna gengis, þ.e. vegna þess hvernig gengið hefur þróast í útboðum í rauninni. Ég náði ekki alveg hvaða samanburð þingmaðurinn var með þegar hann nefndi að það munaði 11–15 milljörðum á genginu sem nú er verið að bjóða á og svo á einhverri annarri tölu. Ég náði því hreinlega ekki og langar að spyrja þingmanninn um það og biðja hann að fara aftur yfir dæmið sem hann nefndi.