149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn og aftur komum við að þeim punkti í málinu að þetta snýst að sjálfsögðu allt saman í grunninn um ákveðna hagsmunagæslu, þ.e. hverra hagsmuna er verið að gæta.

Auðvitað er það okkar að reyna að sjá til þess eða í það minnsta hafa áhrif á það hvernig og hversu mikið af vogunarsjóðaeignum sem þessir aðilar eiga hér skila sér til baka til þjóðarinnar, til Íslendinga. Svo virðist sem þarna sé komið niður á eitthvert plan þar sem menn nenna ekki að hugsa um málið lengur, þetta sé eitthvert undirliggjandi mál, því að þetta er ekki vandamál að mínu viti, sem menn vilji leysa með einhverjum hætti og gott sé að klára það, eins og stundum er sagt. Það skiptir ekki máli hvað þetta eru margir milljarðar heldur þarf bara að klára málið.

Er mögulegt að við séum í þeirri stöðu enn og aftur að menn hafi farið í einhvern leiðangur þegar líða tók á árið 2016 og samið sig smám saman niður á það verð sem við sjáum í dag, sem er langtum lægra en það sem menn ætluðu sjóðunum að greiða miðað við þær áætlanir og þau plön sem lagt var upp með á sínum tíma?

Það er nefnilega þannig að þegar við erum að verjast og sækja fram um leið þarf ákveðna þolinmæði, ákveðna þrautseigju til að geta beitt vörninni til sigurs. Mér finnst eins og hv. þingmaður hafi verið að segja okkur dæmi um það sem hefur skort á, að vörnin hafi brostið þegar menn léðu máls á því að mögulega væri hægt að semja um aðrar upphæðir en öðrum var gert að borga eða sætta sig við.