149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svarið. Það er ánægjulegt að nú séum við Miðflokksmenn ekki einir í salnum eins og verið hefur um allnokkra hríð. Til viðbótar við það sem ég spurði hv. þingmann um áðan langar mig að eiga við hann orðastað um það sem virðist skína í gegn, þessi skilaboð stjórnvalda um að nú séum við búin að fá nóg. Aðgerðirnar sem voru rammaðar inn af ríkisstjórn þáverandi forsætisráðherra, formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, árið 2015, hafi gengið svo vel og þær hafi skilað svo miklu að nú séu séum við bara komin á fínan stað og getum leyft okkur að gefa eftir alvöruupphæðir. Við höfum séð þetta í ýmsum málum undanfarið og það má eiginlega segja að þetta hafi kannski jafnt og þétt verið að fljóta upp, þessi afstaða stjórnvalda, síðan seinni part árs 2016, en hún hefur sennilega aldrei verið skýrari en í dag með útfærslu þessa máls.

Mér leikur hugur á að vita: Upplifir hv. þingmaður afstöðu stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, með sama hætti og sá sem hér stendur, þ.e. að menn séu saddir og telji sig þar af leiðandi geta gefið frá sér stórar upphæðir sem hefðu komið í ríkissjóð hefðu menn haft döngun í sér til þess að fylgja planinu sem lagt var af stað með til enda í stað þess að verðlauna þá sem erfiðastir voru íslenskum stjórnvöldum og íslenskum hagsmunum þegar mest reyndi á?