149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri komið nóg af umræðum um þessa undarlegu dagsetningu og þá hættu sem stafaði af henni, en ég stenst nú samt ekki mátið vegna þess að eftir að hv. þingmaður benti á þetta þá skoðaði ég það og sá að umræða um þetta mál hófst vissulega 15.03. Loki skuldabréfamarkaður kl. 15.30, eða 16, ég er ekki viss, er ljóst að menn hafa væntanlega ætlað að klára framsöguræðu, andsvör, aðrar ræður, afgreiða málið væntanlega til nefndar, funda í nefndinni, koma aftur með það inn í þingsal í 3. umr. og halda svo atkvæðagreiðslu með atkvæðaskýringum og öllu slíku á 27 mínútum. Það er augljóst að þetta hefði verið óhugsandi. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna málið er sett fram með þessum hætti. Hvers vegna er búinn til þessi tímarammi sem var augljóslega ekki hægt að verða við og meira að segja stjórnarmeirihlutinn, með sitt vald yfir dagskrá þingsins, virtist ekki gera ráð fyrir að gengi eftir? Hvers vegna? Hvers vegna að halda því fram að það verði að klára þetta vegna þess að annars móðgist menn væntanlega við það að geta ekki farið strax og keypt fleiri ríkisskuldabréf, menn sem eru búnir að vera lokaðir hér í höftum í áratug?

Hefur hv. þingmaður sem benti á í raun fáránleika málsins einhverja kenningu um hvers vegna þessu er stillt svona upp gagnvart okkur sem teljum rétt að ræða þetta mikilvæga mál?