149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka seinna andsvar hv. þingmanns. Ég var hreinlega búinn að gleyma því að þessu máli hefði verið hraðað í gegn á nokkrum mínútum, væntanlega 22. janúar sl. Þetta, til viðbótar við allt hitt sem maður er búinn að vera að fara í gegnum hérna, bendir auðvitað til þess að mönnum líði ekkert ofsalega vel með þetta. Það er engin önnur skýring sem stenst einhverja skynsemisskoðun. Þegar menn setja svona mál á dagskrá daginn sem allt fer í háaloft, svo vægt sé til orða tekið, það afgreitt á sex, sjö mínútum og koma síðan ekki með málið inn aftur fyrr en það er komið í algjört óefni út frá einhverjum ófrávíkjanlegum tímafresti, segir bara það eitt að menn vilja ekki ræða efnisatriði málsins. Það er eina skýringin sem stenst einhverja skynsemisskoðun.