149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Seðlabankinn hefur svo sem misstigið sig nokkrum sinnum undanfarin misseri en látum hjá líða að fullyrða að svo sé með þessa yfirlýsingu þótt mér þyki nú hægt að leiða líkur að því. Fjárfestar fara bara með sinn pening þangað og fjárfesta í þeim pappírum sem skila þeim hæstri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu og lengdar skuldbindingar. Í dag held ég að mönnum bjóðist ekki jafn tryggir pappírar og ríkisins, útgefnir íslenskir pappírar, að teknu tilliti til þeirra vaxta sem á þeim eru. Ég held, eins og ég sagði áðan, að menn séu dálítið eins og umvafðir bómull hér í viðskiptum sínum með íslensk ríkisskuldabréf, íslenska ríkispappíra.

Mér þykir undarleg meldingin sem kemur fram frá Seðlabankanum þarna og snýr að umræðum um vaxtastigið. Ég hef sagt það í nokkrum ræðum hér í tengslum við önnur mál á þinginu að allt snúist á endanum um vexti. Húsnæðisvandamálin sem við stöndum frammi fyrir, leigumarkaður og annað slíkt, þetta snýst að langmestu leyti um vextina. Á meðan það er raunin og raunvaxtastigið á Íslandi er algjörlega úr takti við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur þá myndi ég halda að menn yrðu bara mjög afslappaðir hér með sínar krónur áfram á meðan staðan í efnahagsmálum er eins og hún er og vaxtastigið er eins og það er. Vextir á Íslandi eru allt of háir eins og ég hef sagt ótal sinnum í ræðum hér á fyrri stigum.