149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir prýðisgóða ræðu. Eins og ég kom inn á í minni eigin ræðu hér fyrr í umræðunni hef ég hvað mestar áhyggjur af þeim skilaboðum sem í þessari eftirgjöf felast, þ.e. skilaboðunum til þeirra aðila sem við þurfum að takast á við í framtíðinni um hin ýmsu hagsmunamál lands og þjóðar. Það eru skilaboðin til þeirra að það séu bara ágætar líkur til þess að Íslendingar lyppist niður í lokin. Þess vegna sé best að hanga eins og hundur á roði alveg til enda og sjá hvort það raungerist ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hann telji að slík skilaboð hafi á framtíðarhagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar og þingsins fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Mun það draga úr trúverðugleika hennar og jafnvel gera okkur erfiðara fyrir að ná samningum sem annars hefðu verið mögulegir ef mótaðilinn veit að við erum líkleg til að lyppast niður? Mér leikur hugur á að fá að heyra afstöðu þingmannsins til þessa.