149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Í ljósi sögunnar, í ljósi þess sem gerðist fyrir 2008, má einmitt hafa áhyggjur af þessu eins og þingmaðurinn hefur. Íslenskt hagkerfi er náttúrlega afskaplega smátt og auðvelt fórnarlamb, mætti segja. Það er ekki svo mikið mál fyrir auðjöfra, vogunarsjóði sem eiga hundruð milljarða í handraðanum og sjá gróðavon einhvers staðar í heiminum, sérstaklega þegar um er að ræða smáríki eins og Ísland, að veðja gegn krónunni eins og margir gerðu fyrir hrun og högnuðust vel á því. Fjármagnið hér innan lands er það lítið að þetta er alveg raunhæfur möguleiki og sérstaklega, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, þegar menn hafa dæmin fyrir framan sig, þ.e. um linkind stjórnvalda varðandi viðskipti sín við þessa sjóði. Ef menn hafa þetta uppi á borðinu sem dæmi um hvernig eigi að snúa niður smáþjóðir, eins og við horfum upp á núna, eru hrægammarnir fljótir að finna blóðlyktina.