149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru einmitt megináhyggjur mínar sem hv. þingmaður kemur svo vel inn á þarna. Menn finna blóðbragðið. Ef við hefðum átt sambærilegt dæmi svipað samsettrar ríkisstjórnar úr öðru máli — segjum fimm til sjö árum eftir hrun, skiptir ekki öllu máli — áður en sá hluti plansins fór af stað, sem sneri að aflandskrónum, hefði væntanlega enginn aflandskrónueigandi tekið þátt í nokkrum hluta þess ferlis, vitandi það að menn myndu gefast upp, menn myndu lyppast niður á endanum, bjóða alltaf betri og betri díl og betra og betra gengi á evrunni gagnvart þessum krónueignum í höftum.

Það er akkúrat það sem mér finnst skipta svo miklu máli að við vindum ofan af þessu máli. Við eigum að senda þau skilaboð út á við að við stöndum í lappirnar, klárum plönin sem við förum af stað með og eitthvert bit sé í hótunum sem frá íslenskum stjórnvöldum koma. Peningarnir bera ekki virðingu fyrir neinu nema hörku. Peningarnir flæða ekki til okkar af því að við séum svo lítil og krúttleg í okkur og lyppumst niður. Peningarnir koma bara þangað sem best er fyrir þá að vera hverju sinni, að teknu tilliti til vaxta, áhættu og binditíma.

Sjónarmið þingmannsins snúa að því að menn séu (Forseti hringir.) að gefa frá sér framtíðarsamningsstöðu með því að sýna svona veikleika og ég tek undir þau.