149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og þessar hugleiðingar. Ég er alveg sammála þingmanninum um að íslensk stjórnvöld, eins og þau gerðu á tímabili, bæði skömmu eftir hrun og í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verða að senda skýr skilaboð út í umheiminn og til vogunarsjóðanna um að þeim verði mætt af fullri hörku. Menn urðu að skilja það. Annars gengu þeir auðvitað á lagið, að sjálfsögðu. Þeir gefa ekki eftir. Þessir vogunarsjóðir gefa ekki eftir bara af því að við séum svo mikil krúttþjóð. Það er alveg ljóst. Við erum vissulega lítil þjóð en þeir gefa ekkert eftir þess vegna.

Við verðum að standa í lappirnar. Þessir sömu aðilar — hugsið ykkur, þessir sömu aðilar í einhverjum tilvikum — veðjuðu á móti krónunni hér fyrir hrun, tóku út geysilegan hagnað þegar krónan hrundi. Síðan komu þeir örskömmu síðar, kannski bara vikum síðar eða í mesta lagi nokkrum mánuðum síðar, keyptu kröfur hér innan lands á algjöru hrakvirði, allt niður í 5% eða jafnvel lægra. Nú eru þeir að taka þær út aftur, þeir sem ekki eru þegar búnir að því, með þvílíkum gróða. Við yppum bara öxlum, við gefumst upp. Við erum í búningsklefunum. Við erum ekki inni á leikvellinum.