149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Hægt er að bakka aftur til ársins 2016, nánar tiltekið til byrjunar þess árs. Þá var ákveðið að fara í 250 milljarða aflandskrónuútboð, eins og sagt var í fréttum. Því var haldið fram að það skipti miklu máli að vera með rétta tímasetningu, að halda plani og sagt að halda ætti útboðið eins fljótt og hægt væri.

Sérstaklega var tekið fram að svokallaður aflandskrónustabbi, eins og menn hafa minnst á í dag, væri í höndum fjögurra sjóða. Skilyrðin voru stíf. Annars vegar myndi Seðlabankinn halda gjaldeyrisuppboð þar sem aflandskrónueigendur myndu greiða verulegt álag fyrir útgöngu úr höftunum. Hins vegar var talað um útgáfu á skuldabréfi í krónum til 20 ára sem samræmdist greiðslujöfnuði þjóðarbúsins, útgöngugjald fyrstu sjö árin eða skuldabréf til meðallangs tíma í evrum. Þeir sem ekki féllust á þessi skilyrði enduðu með krónueignir sínar á engum vöxtum.

Seðlabanki Íslands tilkynnti svo hinn 25. maí 2016 að haldið yrði gjaldeyrisútboð 16. júní þar sem bankinn bauðst til að kaupa krónur í skiptum fyrir reiðufé í erlendum gjaldeyri. Nánar tiltekið var um að ræða krónur sem uppfylltu skilgreiningu laga nr. 37/2016, svonefndar aflandskrónur. Var auglýst að útboðið færi fram fimmtudaginn 16. júní 2016, það hæfist kl. 10 fyrir hádegi og ætti að standa til kl. 14 sama dag eftir hádegi. Útboðið var liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta, samanber áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans um losun fjármagnshafta frá árinu 2015, 8. júní þess árs.

Nokkrum dögum seinna breyttist svo Seðlabankinn útboðsskilmálum en breytingin fólst í því að lengri frestur var gefinn samkvæmt 13. gr. útboðsskilmálanna til að skila inn verðmati á annars konar aflandskrónueignum en þeim sem voru í formi reiðufjár, skuldabréfa og víxla útgefnum af ríkisstjórn Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins. Fresturinn rann út kl. 15, 15. júní 2016.

En þetta er ekki búið. Enn breytti Seðlabankinn útboðsskilmálum, seinkaði útboðinu um einn dag. Svo sneri breytingin á orðalagi 4. gr. skilmálanna til að árétta að samsetning magntilboða og gildra verðtilboða komi til með að mynda lægsta mögulega kaupverð í krónum í skiptum fyrir evrur í útboðinu.

Enn fremur var 5. gr. útboðsskilmálanna breytt til samræmis við breytingar á 4. gr. ásamt því að ekki var lengur gerður áskilnaður í 5. gr. um að tilboðunum undir 190 kr. á evru væri hafnað af fullu. Samhliða þessu birtust fréttir og hótanir frá vogunarsjóðum. Þeir hótuðu að stefna íslenska ríkinu, en þáverandi fjármálaráðherra var þá enn á réttu spori þó að Seðlabankinn væri hikandi, gæfi í rauninni eftir. Þáverandi fjármálaráðherra sagðist ætla að setja eigendum aflandskróna afarkosti.

Í fréttum í lok maí 2016 kom fram að fulltrúar stjórnvalda hafi hitt eigendur aflandskróna í New York. Í umfjöllun um málið kom fram að aflandskrónueigendur gætu átt von á því að fá eignir sínar á lítillega hagstæðara gengi en 220 kr. Allt gekk þetta ágætlega. Í fréttatilkynningu Seðlabanka Íslands sem birt var 21. júní 2016 kom fram að Seðlabanki Íslands hefði ákveðið í framhaldi af niðurstöðu gjaldeyrisútboðsins sem fram fór þann 16. júní að bjóðast til að kaupa á útboðsgenginu 190 kr. á hverjar evruaflandskrónueignir sem ekki voru seldar 16. júní.

Til að gera langa sögu stutta voru þetta ágætistíðindi því að það sem gerðist var að útboðið hafði góð áhrif á lánshæfi Íslands. Lánshæfisfyrirtækið Moody's mat stöðuna þannig, sagði útboðið létta á þrýstingi og sagði tímasetninguna vera hárrétta. Svo gerðist eitthvað og ríkið fór að gefa eftir. Þetta var upp úr miðju ári, jafnvel á haustdögum 2016. Þá var farið að tala um að selja á 165 kr. Vogunarsjóðirnir sáu tækifæri í þeirri stöðu. Þáverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabankans lýsti þeirri skoðun sinni að losa mætti út aflandskrónueignir erlendu sjóðanna í skiptum fyrir gjaldeyri úr forða bankans á genginu 160–170 kr. fyrir hverja evru. Það var vissulega persónuleg skoðun framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabankans, en þetta fréttu auðvitað eigendur aflandskróna.

Á haustmánuðum 2016 urðu stjórnarskipti og fulltrúar stærstu eigenda aflandskróna gerðu sér þá strax vonir um að íslensk stjórnvöld sem tækju við væru tilbúin að hleypa þeim úr landi á hagstæðara gengi en þeim bauðst áður í gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Þetta kom fram í frétt The Financial Times. Síðan gerðist það að íslenskir embættismenn fóru á fund vogunarsjóðanna til þess að ná við þá samkomulagi. Þá var rætt um að þeir gætu fengið sig greidda út á töluvert hagstæðara gengi, eða mögulega á genginu 130–140 kr. Allt gekk það niður á við. Hagsmunir Íslands voru hafðir að engu.

Þáverandi fjármálaráðherra í nýrri stjórn vildi ekkert tjá sig um fundinn, sagði málið vera í ferli, enda var það komið á þann stað að það einkenndist hvað mest af ístöðuleysi, eins og það gerir nú, í algerri uppgjöf stjórnvalda.

Ég velti því fyrir mér eftir að hafa farið í gegnum lestur frétta frá þessum tíma og fréttatilkynninga sem bárust frá Seðlabanka Íslands hvað hefði verið hægt að gera fyrir þessar töpuðu fjármuni. Við heyrðum í dag að næg eru tilefnin. Við heyrum að öryrkjar bíða eftir leiðréttingu. Við höfum rætt hér mjög mikið um að afnema krónu á móti krónu skerðingu, sem hefði hugsanlega verið hægt að fara í ef stjórnvöld hefðu aðeins hugsað til enda.

Einnig hefði mátt ræða nýtt þjóðarsjúkrahús. Við höfum talað um að það þurfi að finna því nýjan stað. Eru menn á því og vel hefði verið hægt að spýta í lófana hvað það varðar. Nú eru stjórnvöld á hliðarlínunni við gerð kjarasamninga. Stjórnvöld hafa ýmislegt í hendi sér. Stjórnvöld hefðu getað farið þá leið að lækka tryggingagjald á fyrirtæki svo hægt væri að hækka laun starfsmanna. Fara hefði mátt í það að gera heilbrigðiskerfið skilvirka og til að klára hér í þetta sinn hefði mátt gera alvörukjarasamninga við bændur. Eins og staðan er núna er það eina stéttin sem virðist eiga að skilja eftir, nú þegar verið er að taka upp samninga við allar aðrar stéttir.